Komið hefur í ljós við athugun á vegum félagsmálaráðuneytisins, að hús í Reykjavík hafa mörg hver allt of lítið burðarþol. Hafþór Jónsson hjá Almannavörnum kallar niðurstöðurnar “skelfilegar” og Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, kallar þær “hrikalegar”.
Í greinum í nýlegu blaði byggingatæknifræðinema hafa Guðbrandur Steinþórsson, deildarstjóri byggingatæknideildar Tækniskóla Íslands, og Gunnar Torfason byggingaverkfræðingur gagnrýnt harðlega fúsk sumra byggingamanna og eftirlitsleysi opinberra aðila.
Í grein Gunnars segir m.a.: “Virkasti hópurinn af slíkum fúskurum er ekki stór, kannski innan við 20 manns. Flest nöfnin þekkja byggingafulltrúarnir á höfuðborgarsvæðinu og væri því leikur einn að stöðva þetta fúsk í gegnum skrifstofur embættanna. En einnig hér er ríkjandi landlæg drullusokkadýrkun og linka.”
Rúmt ár er síðan fram kom í nefndaráliti til félagsmálaráðherra rökstuddur grunur um, að ekki væri allt með felldu í byggingaeftirliti Reykjavíkur, að því er varðar burðarþol húsa. Í kjölfarið voru tíu hús rannsökuð. Þau reyndust öll hafa of lítið burðarþol.
Niðurstöðurnar voru sendar borgarverkfræðingi 9. apríl. Hann virðist lítið hafa sinnt þeim, því að málið kom borgarstjórn á óvart, þegar félagsmálaráðuneytið hélt blaðamannafund um það 19. maí. Borgarverkfræðingur hafði 11. maí verið boðaður á þann fund.
Allir málsaðilar hins opinbera virðast sammála um að halda leyndu fyrir fólki, hvaða tíu hús þetta séu. DV hefur upplýst, að eitt þeirra sé Foldaskóli. Það hefur verið staðfest. Hinum níu húsunum er enn haldið leyndum, væntanlega á þeirri forsendu, að þekking sé fólki hættulegri en hús með of litlu burðarþoli.
Mál þetta hefur leitt til, að Almannavarnir ríkisins verða að endurskoða fyrri áætlanir um neyðaraðgerðir. Þær gera ráð fyrir, að hús séu byggð í samræmi við ákveðna jarðskjálftastuðla. Þau valdi því ekki tjóni í jarðskjálftum og nýtist eftir þá í starfi almannavarna.
Málið felst í, að nafnkunnir fúskarar komast ýmist upp með að skila ekki burðarþolsteikningum til byggingafulltrúa eða fá þær áritaðar athugunarlaust, ef þeir leggja þær fram. Eðlilegt er, að reiði ráðamanna og almennings beinist helzt að byggingafulltrúanum.
Athyglisvert er, að þessi sami byggingafulltrúi Reykjavíkur sætti í vetur gagnrýni vegna skorts á eftirliti með lélegri steypu. Augljóst má því vera, að vítavert sinnuleysi ræður almennt ríkjum hjá þessu embætti.
Ekki er síður athyglisvert, að borgarverkfræðingur hefur ekki aðeins reynzt seinfær og fáskiptinn um burðarþolsskýrsluna, heldur hefur hann heimilað starfsmönnum byggingaeftirlitsins að hanna hús, sem þeir síðan samþykkja og stimpla fyrir hönd stofnunarinnar.
Athyglisverðast er þó, að úrbótatillögur borgarstjóra og meirihluta hans í borgarstjórn fjalla nær eingöngu um, að hér eftir verði burðarþolsútreikningar að fylgja teikningum af ákveðnum tegundum húsa. Ekkert er reynt að taka á innri vanda borgarkerfisins.
Nærtækast væri þó að svipta réttindum frægustu fúskarana tuttugu, reka byggingafulltrúann og víta borgarverkfræðinginn, sem hafa árum saman látið viðgangast “hrikalegt” og “skelfilegt” ástand í burðarþoli mannvirkja, sem hæglega geta orðið tugum eða hundruðum borgara að bana í myndarlegum jarðskjálfta.
En Reykjavík kvað vera hálfgert bananalýðveldi.
Jónas Kristjánsson
DV