Frá Svínárnesi um Grjótártungu og Jökulkvísl að Hvítárbrú norðan Bláfells.
Áður fyrr var þetta afleggjari Kjalvegar niður í Hreppa og aðrar sveitir austan Hvítár. Þá var farið yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells. Þegar Gissur Þorvaldsson bjó í Hruna, hefur þetta verið leið hans norður á Kjöl. Þá var byggð mun lengra upp með Hvítá austanverðri en nú er. Skammur vegur frá efstu bæjum við Stangará að Kjalvegi við Hólmavað. Fossinn Ábóti hét upprunalega Árbótarfoss.
Förum frá fjallaskálanum í Svínárnesi í 390 metra hæð smáspöl suður með Sandá og síðan yfir hana á vaði og þverbeygjum norður með ánni. Síðan um Lausamannsölduver yfir í Hrafntóftaver austan við Grjótá. Förum þar yfir ána og norðvestur um Grjótártungu. Þar nálgumst við Hvítá við fossinn Ábóta og förum síðan um Ábótaver. Förum yfir Jökulkvísl á vaði og síðan vestur yfir Miðnes að brúnni yfir Hvítá í 430 metra hæð. Handan brúarinnar er hestagerði og hesthús.
10,9 km
Árnessýsla
Ekki fyrir göngufólk
Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Kjalvegur, Harðivöllur, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort