Frá Hveravöllum að Ströngukvíslarskála.
Gamla leiðin um sæmilega gróna víðáttu Eyvindarstaðaheiðar milli Hveravalla á Kili og Skagafjarðar er fjölfarin nú sem endranær. Fyrirtæki í hestaferðum nota þessa leið mikið. Á sumrin fara hér nokkrir hópar með erlenda ferðamenn og stóran hrossarekstur nokkrum sinnum í viku. Farið er um grónar tungur og um vöð á helztu kvíslum Blöndu, einni af annarri. Hér skiptast á mýrar og velgrónir móar, notalegt afréttarland. Sums staðar eru flár með kargaþýfi og voldugum þúfnarústum. Reiðvegurinn liggur um móa, er þurr og vel fær. Hann er einnig notaður af jeppum.
Förum frá Hveravöllum í 640 metra hæð vestur og norður með hestagirðingunni eftir greinilegri slóð, sem liggur nánast hánorður alla leiðina. Við förum yfir þjóðveg 35 hjá brúnni yfir Seyðisá, í 570 metra hæð. Höldum áfram reiðslóðina norður með ánni að austanverðu. Komum að ströngu og stórgrýttu vaði á meginkvísl Blöndu. Síðan áfram norður yfir þægilega Svörtukvísl og Herjólfslæk og loks að vatnsmeiri Ströngukvísl. Leiðin liggur um Biskupstungur, Svörtutungur og Guðlaugstungur. Loks er hægt að fylgja jeppaslóðinni, fara yfir Ströngukvísl á brú og fylgja þaðan heimreið að Ströngukvíslarskála. Eða beygja á Draughálsi til austurs eftir slóð að vaði yfir kvíslina neðan við Ströngukvíslarskála. Hér er myndarlegur skáli í 540 metra hæð, með góðri gistingu. Við erum komin í Ásgeirstungur.
25,2 km
Húnavatnssýslur
Erfitt fyrir göngufólk
Skálar:
Hveravellir: N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Þjófadalir, Stélbrattur, Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar, Hanzkafell, Krákur, Skiptamelur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson