Ört safnað í gengislækkun

Greinar

Spádómar um gengislækkun, sem heyrzt hafa í þessari viku, eru ekki ástæðulausir, þótt aðstæður séu að ýmsu leyti aðrar en venjulega eru undanfari gengislækkunar. Í þetta sinn kallar óstand ríkisfjármála, en ekki útflutningsatvinnuveganna, á gengislækkun.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa hagnað um þessar mundir, þótt genginu hafi lengi verið haldið stöðugu og kostnaður samt farið hækkandi í landinu. Aukin samkeppni annarra greina um vinnuafl og fjármagn hefur ekki hindrað sjávarútveginn í að byggja sig upp.

Mikil og vaxandi spenna er á vinnumarkaði. Fyrir ári voru 1.900 laus störf í þjóðfélaginu. Í haust voru þau komin upp í 2.700. Og nú eru lausu störfin orðin 3.200 alls, þar af um 1.700 utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti þessu koma ekki nema 560 atvinnuleysingjar.

Athyglisvert er, að í fiskvinnsluna eina vantar 650 manns til starfa utan Reykjavíkursvæðisins. Vinnuaflsskorturinn stingur í stúf við sífellt sífur fiskvinnslumanna um, að útflutningur á ferskum fiski sé að drepa fiskvinnsluna og valda landauðn í sjávarplássunum.

Í þessari gífurlegu þenslu reynir ríkisvaldið ekki að hamla á móti með sparnaði og samdrætti. Þvert á móti hefur hið opinbera haft forustu í að magna þensluna. Það jók raunar forustuna síðustu mánuðina fyrir kosningar, þegar atkvæðakaup stjórnarflokkanna voru mest.

Svo er nú komið fjármálum ríkisins, að undir mitt ár eru horfur á, að þensluhalli þeirra verði um fimm milljarðar á þessu ári og heildarþörf ríkisins fyrir lánsfé verði tæpir níu milljarðar á árinu. Hvort tveggja eru tölur af áður óþekktri stærðargráðu.

Ríkið þarf auðvitað að fá aura upp í þennan halla í útlöndum og heima fyrir. Ekki er vænlegt að leita mjög á fjarlæg mið, því að erlendar skuldir þjóðarinnar eru komnar upp í 310 þúsund krónur á hvert einasta mannsbarn í landinu og lánstraust okkar er tiltölulega lítið.

Ríkið þarf að bjóða hærri vexti á spariskírteinum sínum til að brúa bilið. Þar með stuðlar ríkið að almennri hækkun vaxta í þjóðfélaginu. Miklu verra er þó, að þetta hleypir kjarki í skottulækna, sem segja, að í lagi sé að hafa mikinn halla á ríkisbúskapnum.

Ekkert lát er á eyðslusemi ríkisstjórnarinnar, þótt hún hafi misst þingmeirihluta sinn í kosningunum og eigi bara að vera að gæta sjoppunnar að beiðni forseta, meðan verið er að mynda nýja ríkisstjórn. Daglega grýtir hún tugum milljóna króna út um gluggann.

Einn daginn kaupir hún nýtt hlutafé í vonlausri Steinullarverksmiðju fyrir nokkra tugi milljóna. Næsta daginn kaupir hún sjúkrahús í Hafnarfirði fyrir enn fleiri tugi milljóna. Hinn þriðja lofar hún að ábyrgjast alþjóðlegt handboltamót einhvern tíma í framtíðinni.

Á sama tíma hvetur hún verðbólguna með því að hafa opinberar verðhækkanir tvöfalt hærri en gert hafði verið ráð fyrir í almennu kjarasamningunum í vetur. Þar með fer hún yfir öll rauð strik og slær svo sérstakt met með því að hækka afnotagjald ríkisútvarps um 67%.

Í viðræðum um stjórnarmyndun hefur birzt almenn hugsjón stjórnmálamanna, að brennsla opinberra peninga í landbúnaði verði ekki minnkuð á þessu kjörtímabili og að staðið verði við 28 milljarða króna samning ríkisins frá í vetur um kaup á mjólk og kjöti.

Að öllu samanlögðu er engin furða, þótt ástand og horfur ríkisfjármála leiði til spádóma kunnáttumanna um, að í aðsigi sé lækkun gengis hinnar hrjáðu krónu.

Jónas Kristjánsson

DV