Elliheimilið var hér

Greinar

Einn gesta á fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík dáðist að eskimóunum, sem hann taldi nýstigna úr kajökum sínum. “Þeir eru í sjálflýsandi veiðigöllum”, sagði hann. Hann átti við björgunarsveitarmenn, er stóðu umhverfis Hótel Sögu og nöguðu prinspóló.

Hinir skrautbúnu varðmenn Íslands þóttu nokkuð fyndnir, því að sjaldgæft er, að varðsveitamenn séu í sjálflýsandi fötum. Annars staðar í heiminum er lögð áherzla á, að þeir stingi ekki mjög í stúf við umhverfið. Þeir séu á staðnum, en sjáist helzt ekki.

Sumir útlendinganna töldu öryggisgæzlu umfangsmeiri hér en verið hefur á hliðstæðum ráðherrafundum bandalagsins. Lögreglumenn léku hlutverk blindra bókstafstrúarmanna af stakri prýði, eins og heimsstyrjöld væri vís, ef vikið yrði millímetra frá settum reglum.

Samt var erlend fréttastofa að grínast með, að Íslendingar ættu í mesta basli við skipulag fundarins. Í frétt hennar var fjallað um, hversu lítil Reykjavík væri fyrir svona stóran fund. Er þó mannfærra umhverfis Nató-undinn en var, þegar leiðtogar heimsveldanna hittust.

Ekki er laust við, að einnig sumum heimamönnum finnist fundur vera of umfangsmikill, ef hann raskar háttum manna, sem eru alsaklausir af þátttöku í tilstandinu. Unnt er að efast um, að skynsamlegt sé að sækjast eftir komu margra slíkra, marklítilla stórfunda.

Hin tímabundna nálægð við Nató er þó fróðleg þeim, sem vilja fylgjast með alþjóðamálum og ófriðarhættu. Ráðherrafundurinn í Reykjavík í síðustu viku auglýsti fyrir Íslendingum, hversu fótafúin eru orðin þessi samtök, sem lengi hafa þakkað sér Evrópufriðinn.

Á einu ári hefur allt frumkvæði í samskiptum austurs og vesturs færst í hendur Gorbatsjovs, flokksleiðtoga í Sovétríkjunum. Hann hefur spilað út hverju sáttaspilinu á fætur öðru ­ við síðbúnar eða alls engar undirtektir viðsemjendanna í Atlantshafsbandalaginu.

Georgi Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varð orðvant í Moskvu fyrir nokkrum vikum, þegar Gorbatsjov bauðst til að gefa einhliða eftir skammdrægar eldflaugar sínar í Evrópu sem kaupbæti upp á samkomulag um afnám meðaldrægra eldflauga í álfunni.

Af sanngirnisástæðum verður þó að taka fram, að nýjasta tilboð Sovétleiðtogans fjallar í raun um að færa kjarnorkuviðbúnaðinn aftur á stigið, sem hann var á fyrir ellefu árum, þegar Sovétmenn hófu einhliða vígbúnaðarkapphlaup, sem hefur raskað öryggi í Evrópu.

En óneitanlega hafa síðustu útspil Gorbatsjovs sett Nató út í horn. Þar á bæ virðist skorta getu til að mæta frumkvæðinu að austan með viðbrögðum og gagnfrumkvæði, sem endurheimti traust Vesturlandabúa á gagnsemi hins aldraða og þreytta bandalags.

Fleiri eru nefnilega skondnir en sjálflýsandi varðmenn við Sögu. Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins eru sjálfir dálítið broslegir, þegar þeir taka fullir tortryggni og efasemda við austrænum tilboðum, sem eru orðréttar þýðingar á nokkurra ára gömlum Nató-tilboðum.

Reykjavíkurfundur bandalagsins staðfesti enn einu sinni, að kominn er tími til að hrista upp í elliheimili Nató. Í áróðurskapphlaupi austurs og vesturs er nauðsynlegt, að Vesturlönd nái á ný frumkvæði í viðræðum um gagnkvæma minnkun vígbúnaðar í austri og vestri.

Fyrst og fremst er Atlantshafsbandalaginu brýnt að endurheimta traust Vesturlandabúa sem lifandi stofnun, er sé í samræmi við öryggisþarfir nútímafólks.

Jónas Kristjánsson

DV