Ofbeitarfé á öskuhauga

Greinar

Fimmtán þúsund dilkum var ekið í kyrrþey á öskuhauga Reykjavíkur í Gufunesi í síðustu viku. Þar var jarðýta látin moka yfir 250 tonn af kindakjöti frá 1985. Okkar menn voru á varðbergi eins og oft áður, svo að lesendur DV fengu að vita af myrkraverkinu.

Mistökin, sem ollu þessari offramleiðslu, voru ekki grafin með dilkunum fimmtán þúsund. Þau er verið að endurtaka í ár og verða endurtekin á næstu árum. Allir stjórnmálaflokkar, sem hafa komið nálægt viðræðum um nýja stjórn, eru sammála um að halda þeim áfram.

Fyrir skömmu kvartaði Landgræðsla ríkisins yfir, að sauðfé hefði verið rekið allt of snemma inn á viðkvæman Austurafrétt Mývetninga, þar sem Landgræðslan hefur girt fimm stór friðunarsvæði til að tefja af veikum mætti fyrir, að þar myndist alger sandauðn.

Mývatnsmálið og Gufunesmálið sýna í hnotskurn, hvernig komið er fyrir sauðfjárrækt hér á landi. Ísland er ofbeitt af óhóflegum fjölda sauðfjár, sem síðan verður að fleygja á öskuhaugana. Allir stjórnmálaflokkar eru í raun sammála um að standa vörð um þennan glæp.

Norðanverðar Strandir eru eini hluti landsins, þar sem gróðri hefur farið fram í stórum stíl. Þær hafa líka verið í eyði um langt skeið. Þær fá því að vera í friði fyrir höfuðóvinum landsins, sauðkindinni og sauðfjárbændum. Samt er reynt að hindra, að meira fari í eyði.

Áður en 15.000 dilkunum var fleygt á öskuhauga Reykjavíkur, var búið að reyna margt til að koma út afleiðingum ofbeitarinnar, hinu óþarfa dilkakjöti. Lengi var hægt að gefa dilkakjötið útlendingum, en þeir hafa gerzt slíkum gjöfum fráhverfir á undanförnum árum.

Enda kemur féð svo magurt af hinum ofbeittu afréttum, að bændur telja sig neydda til að beita því á vegkanta og fóðurkál til að ná upp þyngdinni í fitu. Þaðan koma hin fóðurkálsöldu vegalömb, sem reynt er að selja sem villibráð, en auðvitað án árangurs.

Næsta skref feigðarflansins var stigið í síðasta mánuði, þegar kerfið var látið kaupa í refafóður kjöt af 25 þúsund kindum, samtals 500 tonn, svo og 600 tonn af nautgripakjöti. Refabændur borguðu fimm krónur fyrir hvert kíló, gegn því að lofa að borða það ekki sjálfir.

Þetta dugði skammt, því að ekki er nóg af loðdýrum og loðdýrabændum í landinu. Þess vegna var gripið til örþrifaráðsins á sorphaugunum í síðustu viku. Og áfram munu kerfismenn þurfa að læðast á haugana á næstu mánuðum, því að þeir þurfa að losna við 6.500 tonn.

Tonnin 6.500 eru gamlar birgðir, sem verða fyrir í sláturtíðinni í haust, þegar til falla 12.900 tonn til viðbótar. Þrátt fyrir niðurgreiðslur og uppbætur verður ekki unnt að borða nema um 10.000 tonn af öllu þessu ofbeitarkjöti. Afgangurinn er öskuhaugamatur.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum hefur komið í ljós, að kostnaður ríkisins af umsamdri offramleiðslu í landbúnaði verður miklu meiri en fram kemur í fjárlögum ársins. Jón Helgason landbúnaðarráðherra áætlar, að um 1,2 milljarða vanti til viðbótar í ofbeitarhítina.

Þess vegna er verið að tala um að leggja á okkur bílaeignarskatt, aukinn bensínskatt, krítarkortaskatt og aukinn söluskatt, svo að unnt sé að mynda ríkisstjórn um það meginmarkmið stjórnvitringanna, að haldið verði áfram að rækta ofbeitarfé í öskuhaugamat.

Sérkennileg er sú þjóðaríþrótt að misþyrma Íslandi með ofbeit til að afla dilkakjöts, sem sumpart er selt á fimm krónur í refafóður og afganginum hent á hauga.

Jónas Kristjánsson

DV