Hastarleg ráðherraveiki

Greinar

Af mörgu undarlegu í langdreginni tilraun Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar til að verða ráðherrar er einna sérkennilegast, að aldrei er minnst á sparnað í ríkisrekstri. Niðurskurður ríkisútgjalda er algert bannorð í stjórnarmyndunarviðræðum þeirra.

Þótt margar undirnefndir hafi framleitt handa Jónunum og viðmælendum þeirra mikið af pappír um fjármál ríkisins, er þar hvergi vikið að sparnaði. Hin mikla reiknivinna undirnefndanna fjallar eingöngu um aukna skattheimtu, aðallega vegna kúa og kinda.

Einnig er eftirminnilegt, að ráðherraveikin er svo hastarleg, að Alþýðuflokkurinn hefur kastað fyrir róða öllum sínum skoðunum, þar á meðal á landbúnaði. Tilraun Jónanna fjallar að verulegu leyti um verndun og aukningu fjárveitinga til kúa og kinda.

Athyglisvert er, að Jónarnir eru búnir að verja 23 dögum, meira en þremur vikum, í tilraunir sínar til að verða þriðja hjólið undir kerru núverandi ríkisstjórnar. Þorsteinn Pálsson var skammaður fyrir seinagang, en hann notaði þó ekki nema 16 daga, rúmar tvær vikur.

Eftirtekt hlýtur líka að vekja, að stjórnarmyndendur telja reiknivinnu langt fram í tímann vera höfuðmálið. Það er eins og þeir þykist geta reiknað þorsk á miðin, verðgildi í dollarann og hagþróun í viðskiptalönd okkar. Þeir virðast trúa blint á vafasamar spátölur.

Þegar málsaðilar voru búnir að mála sig út í horn, fann Þorsteinn Pálsson upp á munnlegu snjallræði til að draga viðræðurnar á langinn. Hann lagði til, að stjórnkerfið yrði stokkað upp í stjórnarmynduninni með því að sameina ráðuneyti og sundra þeim á ýmsa vegu.

Þessi skondna hugmynd kallar á sérstök bráðabirgðalög. Merkara er þó, að málsaðilar skuli telja rétt að blanda í stjórnarmyndunarviðræður tæknilegum stjórnkerfisbreytingum, sem annað fólk telur, að eigi að taka langan tíma og hafa auk þess kosningar á milli.

Þegar búið var að sóa viku í að ræða flutning ráðuneyta fram og aftur, fann svo hinn sami formaður Sjálfstæðisflokksins upp á þveröfugri skoðun í sama máli, það er að segja, að stokkunin skipti litlu máli. Þetta var síðbúin hugljómun, en óneitanlega réttmæt.

Þá hefur komið fram í viðræðunum, að fulltrúum Alþýðuflokks finnst erfitt að hnika Sjálfstæðisflokki í neinu, sem máli skiptir. Hinn síðarnefndi hefur að leiðarljósi, að flest sé í stakasta lagi í fjármálum ríkisins, eftir góða fjármálastjórn Alberts og Þorsteins.

Í raun eru það þó fulltrúar Framsóknarflokksins, sem hafa sýnt og sýna enn viðræðunum minnstan áhuga. Steingrímur Hermannsson gaf sér tíma til að skreppa til Portúgal. Nokkru síðar fór hann í lax og kom ekki í bæinn fyrr en kominn var tími til að heilsa kónginum.

Steingrímur fór í laxinn um leið og Halldór Ásgrímsson fór til Bournemouth til að spilla meira en orðið er fyrir áliti Íslands í útlöndum. Að sjálfsögðu er mikilvægt fyrir Halldór að sýna fram á, að hann geti ekkert lært og kunni alls ekki að hætta vonlausu máli.

Hitt er merkilegra, að Steingrímur skuli nota þessa bráðnauðsynlegu fjarveru hins mikla hugsjónamanns hvalveiða til að fara sjálfur til laxveiða og skilja Guðmund Bjarnason eftir í reiðileysi í viðræðum við hina óvenjulega ráðherrasjúku fulltrúa Alþýðuflokksins.

Meðan viðmælendur hlaupa þannig út og suður, hefur Jón Hannibalsson í rúmar þrjár vikur verið stórorður um, að allt væri að renna saman. En úti er ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV