Haugakvísl

Frá Ströngukvíslarskála að Galtarárskála.

Leiðin liggur um þurrt mólendi. Hin ljóðfræga Galtará er fremur vatnslítil bergvatnsá á Eyvindarstaðaheiði, kemur upp í Galtarárdrögum og fellur í Blöndu. Fræg af kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalokum: “Greiddi ég þér lokka / við Galtará / vel og vandlega; / brosa blómvarir, / blika sjónstjörnur, / roðnar heitur hlýr.” Við ána hafði hann náttstað. Ekki er vitað, hvar Jónas greiddi lokka ástmeyjar sinnar, en ætla má að áningarstaðurinn hafi verið þar sem reiðslóðin Skagfirðingavegur liggur yfir Galtarárdrög, nokkru sunnan núverandi fjallaskála og jeppavegar. Að mestu er farið um þurrt land ofan gróðurlendis Húnavatnssýslu. Ef farin er reiðleiðin, eiga engir jeppar að geta verið þar á ferð. Vékelshaugar heita eftir Vékeli landnámsmanni á Mælifelli, sem fór þangað í landaleit.

Förum frá Ströngukvíslarskála í 540 metra hæð meðfram heimreiðinni frá skálanum að hinum gamla Kjalvegi norður í Skagafjörð. Rétt áður en við komum að jeppaslóðinni yfir að Galtará förum við reiðslóðina til norðurs um Álfgeirstungur. Við förum vestan við Þúfnavatn, yfir Haugakvísl og um Vékelshauga. Þegar við komum að Galtará, erum við komin í Galtarárdrög, á þann stað, þar sem Jónas Hallgrímsson hafði náttstað og greiddi lokka ástmeyjar við Galtará. Héðan förum við norður af slóðinni meðfram vatnslítilli ánni, förum austan við Blönduvatnshæð og vestan við Syðra- og Ytra-Hanzkafell. Komum að skálanum við Galtará í 490 metra hæð, þar sem við mætum jeppaveginum rétt hjá Langaflóa í Blöndulóni.

23,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.

Nálægir ferlar: Guðlaugstungur, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Stífluvegur, Fossaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson