Braggablús í Tjörninni

Greinar

Braggarnir tveir, sem borgarstjórnin ætlar að reisa í Tjörninni og kallar ráðhús, eru tiltölulega látlausir og skemmtilegir. Beztir eru þeir þó fyrir að bera engan veginn utan á sér, að þeir séu veizlu- og monthús. Þeir eru ekki þrúgaðir af þykjustuleik hefðarinnar.

Merkilegt er, hversu illa fjölmiðlar hafa sinnt úrslitum verðlaunasamkeppninnar um ráðhús í Tjörninni. Yfirleitt hafa þeir aðeins sýnt almenningi, hvernig braggarnir tveir munu líta út í augum flugmanna, sem eru búnir að hefja sig á loft eftir 02 flugbrautinni.

Aðeins hér í DV hafa verið birtar myndir, sem sýna, hvernig ráðhúsið blasir við vegfarendum um Tjarnargötu, Vonarstræti og Fríkirkjuveg. Þær sýna, að fleira er við ráðhúsið en braggaþakið eitt. Þær sýna tiltölulega hógvært og létt hús, sem fellur að umhverfinu.

Ekki er allt gott við þetta ráðhús. Í fyrsta lagi er það síður en svo fallegra en húsið, sem stendur fyrir á lóðinni. Er því enn einu sinni ástæða til að ítreka spurninguna um, hvenær borgarstjórn hyggist láta af niðurrifi gamalla og fagurra húsa til að rýma fyrir öðrum lakari.

Áður hefur hér í blaðinu verið bent á, að umhverfisstefna borgarstjórnar er mjög neikvæð gagnvart gamla miðbænum í Kvosinni. Þar er ráðgert að láta sögulega fræg hús víkja fyrir hollenzkum síkishúsum, sem raðað er upp, svo að þau myndi mannfjandsamlegar stormgjár.

Í öðru lagi verða hinir fyrirhuguðu ráðhúsbraggar byggðir langt út í Tjörnina, því að núverandi lóð er ekki nógu stór. Þar með skerðist Tjörnin. Það er skaðleg iðja, ekki sízt, ef hún er skoðuð í samhengi við áform um að breikka Fríkirkjuveginn út í Tjörnina.

Ætlunin er að bæta skerðingu Tjarnarinnar með smátjörn að ráðhúsbaki við hornið á Tjarnargötu og Vonarstræti. Það er út af fyrir sig fallega hugsuð tjörn, eins konar lón úr Tjörninni með ós milli bragganna, en bætir þó ekki upp skerðingu stóru Tjarnarinnar.

Í þriðja lagi virðast braggarnir fyrirhuguðu ekki vera svo einstakir, frábærir eða merkilegir, að þeir megni að eyða efasemdum um, að rétt eða þarft sé að hola ráðhúsi niður í Tjörnina. Margoft hefur verið bent á betra svigrúm til ráðhúss annars staðar í borginni.

Miklu ódýrara væri til dæmis fyrir borgina að kaupa Landsbókasafnið, þegar það flyzt í Þjóðarbókhlöðuna. Það er fallegra hús og hentar vel til veizluhalda. Og svo má ekki gleyma, að borgin á fyrir eins konar veizluráðhús í Höfða og að Kjarvalsstöðum. Þarf hið þriðja?

Í fjórða lagi stríðir ráðhúsið gegn því, sem ætti að vera grundvallarlögmál borgarskipulags, að nýja miðbæi skuli ekki byggja ofan í gamla. Um allan heim er algilt, að heppilegast og fegurst hefur reynzt að leyfa gömlu miðbæjunum að halda sér, þótt fátæklegir séu.

Öll stefna borgarstjórnar um fjögurra hæða síkishús í miðbænum er gegnsýrð af minnimáttarkennd hinna nýríku menningarleysingja, sem ímynda sér, að gamlir timburskúrar, eins og þeir í Bakarabrekkunni, séu eins konar fátæktarmerki, er stingi í stúf við nútímann.

Þrátt fyrir þessa fjórþættu gagnrýni felst í fyrirhuguðu ráðhúsbröggunum tveim í Tjörninni mun skárri misþyrming á Kvosinni en í hinum hræðilega alþingiskassa, er nú á að fullhanna fyrir nokkrar milljónir króna, sem sljóir þingmenn veittu í vetur sem leið.

Bezt væri að losna við byggingu ráðhússins. En þolanlegt væri að skipta á því og alþingiskassanum fyrirhugaða. Margt mætti þola til að fá hann úr sögunni.

Jónas Kristjánsson

DV