Illorðir í Alþýðubandalagi

Greinar

Ekkert fólk í landinu talar verr um eigin flokkssystkin en alþýðubandalagsfólk. Þar talar fólk hvað um annað af fullkomnu hatri. Ekkert þessu líkt þekkist annars staðar í stjórnmálunum. Til dæmis talar annarra flokka fólk ekki svona um alþýðubandalagsfólk.

Dæmi eru um, að framámenn í Alþýðubandalaginu tali þannig hver til annars á almannafæri, þar sem annarra flokka fólk má vel heyra, að það fer hreinlega hjá sér. Fyrirlitningin og hálfkveðnu vísurnar ganga á víxl eins og hnúturnar hjá Goðmundi á Glæsivöllum.

Miðstjórnarfundur Alþýðubandalagsins um helgina sýndi, að ástandið fer versnandi og stefnir að formlegu uppgjöri á landsfundi flokksins í haust. Ágreiningurinn er sumpart málefnalegur, en væri ekki svona hatrammur, ef hann væri ekki fyrst og fremst persónulegur.

Línurnar liggja í stórum dráttum þannig, að ótryggt bandalag flokkseigenda og verkalýðsrekenda stendur andspænis menntasveit opinberra starfsmanna. Þessi klofningur endurspeglar málefnalegan ágreining um, hvaða hagsmuna Alþýðubandalagið eigi helzt að gæta.

Verkalýðsrekendur gæta einkum hagsmuna vel stæðs miðstéttarfólks í bláflibbastörfum, til dæmis uppmælingaraðals. Oddamaður þeirra er Ásmundur Stefánsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að stjórna landinu í samstarfi við Vinnuveitendasambandið.

Menntasveitin gætir aftur á móti hagsmuna meðal- og langskólagengins fólks í opinberum stöðum. Oddamaðurinn er Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að vera klárari og ósvífnari en aðrir valdastreitumenn Alþýðubandalagsins.

Milli þeirra stendur formaðurinn, Svavar Gestsson, oddamaður flokkseigendafélagsins, sem undanfarið hefur stjórnað með bandalagi við verkalýðsrekendur flokksins. Svavar hefur bakað sér innanflokksóvild sem persónugervingur hins óheilbrigða ástands í flokknum.

Í sjónvarpi sýnir Svavar mynd hrokafulls manns með höfuðverk. Hann er þar brúnaþungur, reiðilegur og frámunalega yfirlætislegur. Áhorfendur tengja þetta við flokkinn og telja hann margir hverja vera svartagallsflokk pirraðra merkikerta, sem hafi allt á hornum sér.

Myndin styðst við þá staðreynd, að stefna Alþýðu bandalagsins og alþýðubandalagsfólks er að mörgu leyti öfundsýkt og á annan hátt neikvæð, til dæmis í garð verzlunar og viðskipta, bifreiða- og íbúðaeignar, sjónvarps og myndbanda ­ og lífsstíls nútímans yfirleitt.

Raunar er ekki sanngjarnt að gera Svavar að persónugervingi þessa, því að hann hefur sem sjóaður flokkseigandi betri sýn yfir þjóðfélagið en margt af stofublómaliði Ólafs, er ber skýrari merki öfundar og óbeitar út af peningadýrkun og lífsstíl nútímans.

Á hinn bóginn er Ólafur svo fyrirferðarmikill, að á hann duga aðeins tvö ráð. Annað er að reka hann út eins og Framsóknarflokkurinn gerði. Hitt er að fela honum völdin. Hvar sem Ólafur er, verður ekki rúm fyrir fleiri á tindinum. Hann er flokkur út af fyrir sig.

Meðan Ólafur er ekki orðinn oddviti Alþýðubanda lagsins, mun hann grafa undan þeim, sem fyrir sitja á fleti, og þannig rækta upplausnina og úlfúðina í flokknum. Nái hann svo völdum, kann hann aftur á móti sennilega ráð til að breyta dapurri ímynd flokksins.

Meðan streitt og herpt Alþýðubandalag étur sig upp í innra hatri, fá önnur stjórnmálaöfl að valsa á grundum, sem það taldi einu sinni heimavöll, í alþýðutúninu.

Jónas Kristjánsson

DV