Almenningsálitið hér á landi er eindregið fylgjandi, að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og að Steingrímur Hermannsson verði forsætisráðherra. Þetta kom fram í skoðanakönnun DV, sem birtist í blaðinu í gær.
Hvorugt kemur á óvart og sízt gengi Steingríms. Undanfarna mánuði hefur hann jafnan borið höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn í könnunum af þessu tagi. Ljóst er því, að ríkisstjórninni, sem nú er verið að mynda, kæmi bezt, að Steingrímur yrði í forsæti.
Segja má, að Steingrímur haldi persónulega uppi Framsóknarflokknum. Án hans væri flokkurinn nánast rúinn öllu fylgi á suðvesturhorninu, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa. Búast má við, að flokkurinn andist á eðlilegan hátt, þegar Steingrímur hættir.
Þorsteini Pálssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni hefur ekki tekizt að vinna sér þjóðarleiðtogatraust. Tölur könnunar DV sýna, svo ekki verður um villzt, að þeim ber að láta Steingrími eftir forsætið. Þannig verður hin annars veika ríkisstjórn sterkari en ella.
Hér er hin fyrirhugaða ríkisstjórn kölluð veik, þótt að henni standi þrír stærstu þingflokkarnir, sem hafa óvenju ríflegan meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Hún er veik af mörgum ástæðum, til dæmis vegna þess að hún verður tekin með keisaraskurði í fæðingu.
Þjóðin hefur í fjórar vikur horft á stjórnarsamninga, sem boða hættur í fyrirhuguðu samstarfi. Flokksleiðtogarnir væna hver annan um lygar og fals og keppast um að gefa yfirlýsingar, sem lyfta þeim sjálfum á kostnað hinna tveggja. Allt innra traust skortir.
Ríkisstjórnin er einnig veik, af því að hún er beint framhald fyrri ríkisstjórnar. Alþýðuflokkurinn gerist þriðja hjólið undir stjórnarvagninum og býður fram sem ráðherra helzta efnahagsfræðing fyrri ríkisstjórnar. Engin málefni fylgja þátttöku Alþýðuflokksins.
Þríhjólið hefur beinlínis samið um óbreytt ástand á ýmsum sviðum, til dæmis í landbúnaði. Því er ljóst, að næstu árin verður kastað á glæ þeim peningum, sem stjórnin þyrfti að geta notað til að stuðla að framförum í landinu. Hún verður rígbundin á landbúnaðarklafa.
Samt er þetta ríkisstjórnin, sem kjósendur vilja fá, samkvæmt könnun DV. Ef til vill stafar stuðningurinn af, að kjósendur telji þriggja flokka stjórn vera illskárri en fjögurra flokka stjórn og að þessi þriggja flokka kostur hefur lengi verið einn til umræðu.
Þrátt fyrir annmarkana kemur niðurstaða könnunarinnar ekki á óvart. Það stafar af, að gamla ríkisstjórnin hafði ekki bakað sér neina óvild kjósenda og að þetta mynztur gengur að mati kjósenda einna næst hinu fyrra samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Hin nýja ríkisstjórn sækir bæði styrk og veikleika til gömlu stjórnarinnar. Styrkurinn felst í, að þjóðin er í stórum dráttum sátt við gömlu stjórnina. Og veikleikinn felst í, að gamla stjórnin var búin að ljúka því góða, sem hún gat sameinazt um, og átti vandamálin ein eftir.
Hin óviðkunnanlega togstreita flokkanna þriggja og ráðherraefna þeirra um stóla virðist ekki hafa spillt almenningsáliti væntanlegrar stjórnar. Líklega skilja kjósendur, að í raun hafa ráðherrastólar meira stjórnmálagildi en orðskrúð og óskhyggja málefnasamninga.
Líklega verður nú myndað stjórnarþríhjólið, sem almenningur hefur óskað eftir í könnun DV. Hitt er vafasamara, að valinn verði réttur stýrimaður hjólsins.
Jónas Kristjánsson
DV