Ný mýri í fenjaráðuneytinu

Greinar

Margar eru góðgerðarstofnanirnar og mörg eru samtökin, sem leita ásjár hjá skattborgaranum. Á hverju hausti eru lögð inn hundruð umsókna um fé úr ríkissjóði. Hjá sumum eru nokkur hundruð þúsunda króna í húfi, en aðrir telja sig þurfa á milljónum að halda.

Fjárveitinganefnd Alþingis úthlutar skattborgarafé til þessara þarfa sem annarra. Heildarfjármagnið takmarkast af pólitísku mati á, hversu mikil velta megi vera á ríkissjóði hverju sinni. Peningarnir fara mest í fastan rekstur og lítið er afgangs til ýmissar ölmusu.

Fjárveitinganefnd er skipuð meirihluta, sem ræður ferðinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, og minnihluta, sem gagnrýnir gerðir meirihlutans. Úr þessu fæst niðurstaða, sem byggist á umfjöllun, er nú á tímum getur talizt meira eða minna málefnaleg.

Sameinað Alþingi staðfestir síðan fjárlögin frá fjárveitinganefnd rétt fyrir áramót og setur þannig skorður ríkisrekstri næsta árs. Þetta er veigamikill þáttur í þjóðskipulagi okkar og einn af helztu hornsteinum lýðræðisins. Þetta á að vera vörn gegn geðþóttastjórn.

Við skömmtun fjármagnsins verður útundan langur listi góðra mála. Ekki er hægt að kaupa ákveðin hjálpar tæki handa fötluðum börnum. Ekki er hægt að veita ýmsar tegundir sérkennslu. Ekki er hægt að aðstoða ýmsa merka rithöfunda við að ná mannsæmandi tekjum.

Einn þeirra ótal aðila, sem hafa farið bónleiðir til búðar, er Íslenzka óperan í Gamla bíói. Ekki náðist pólitískt meirihlutasamkomulag um, að þarfir hennar væru eins brýnar og þarfir annarra, sem komust á fjárlög ársins. Enda eru Íslendingar ekki milljónaþjóð.

Óperumenn snéru sér þá að því að sleikja ráðherra menntamála, sem er orðinn illræmdur fyrir algeran skort á skilningi á eðlilegum vinnubrögðum í ríki lýðræðis og þingræðis og hefur víðtæka minnimáttarþörf á að baða sig í málskrúði um íslenzka menningu.

Sverrir Hermannsson hafði áður afhent Kvikmyndasjóði húsnæði og tíu milljónir króna, þótt hann hefði ekki til þess heimild, þar sem þær þarfir komust ekki gegnum nálarauga Alþingis. Hann hefur líka keypt Mjólkursamsölu undir Þjóðskjalasafn, án leyfis.

Sem betur fer fyrir lýðræðið í landinu er Sverrir að hætta skrautlegum ráðherraferli sínum. Hann getur því ekki efnt loforð um, að stóreignaskattur Þjóðarbókhlöðu verði innheimtur áfram til að byggja Tónlistarhöll. Örlæti hans á annarra fé verða takmörk sett.

Því miður gildir ekki hið sama um fjármálaráðherrann, sem hefur í vetur verið meðsekur menntaráðherranum í hinum ólöglegu fjármagnsflutningum, þar á meðal í ríkisrekstri Óperunnar. Þorsteinn Pálsson verður í næstu viku gerður að forsætisráðherra.

Þeir hafa tekið saman höndum um að veita Óperunni þrettán milljónir króna framhjá fjárlögum þessa árs og lofa henni átta milljónum króna á ári næstu þrjú árin. Samtals hafa þeir skuldbundið hina örlátu skattgreiðendur til að greiða Óperunni 37 milljónir króna.

Með þessu hafa tveir ráðherrar í stjórn, sem ekki hefur meirihluta á Alþingi, ákveðið að gera Óperuna að hliðstæðu ríkisfyrirtæki og Þjóðleikhúsið, án þess að spyrja Alþingi ráða eða fara á nokkurn hátt eftir þeim reglum, sem fylgt hafa og fylgja eiga þingræði.

Ekki er víst, að Óperan blómstri lengi sem ný mýri í því fenjaráðuneyti, sem menntaráðuneytið er orðið. En hún þarf ekki lengur á velvild almennings að halda.

Jónas Kristjánsson

DV