Háumýrar

Frá Sprengisandsvegi um Sóleyjarhöfða og um Hreysisöldu að Sprengisandsvegi um Arnarfell.

Ef Þjórsá er farin á Sóleyjarhöfðavaði, er þetta fyrri hluti vestari leiðarinnar yfir Sprengisand. Síðari hlutinn er hér kallaður Háöldur. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Háumýrar voru fyrrum mýrar, sem hafa þornað upp. Þar er nú lélegur mosagróður, helzt meðfram Háumýrakvísl.

Förum frá Sóleyjarhöfða í 580 metra hæð suðaustur eftir jeppaslóð yfir Ferðamannaöldu og síðan austur að Kvíslavatni. Síðan norður með vatninu, framhjá afleggjara að fjallaskálanum Gásagusti. Frá norðurenda vatnsins förum við norður, framhjá afleggjara vestur að Eyvindarkofa og síðan öðrum afleggjara vestur að fjallakofanum Hreysiskvísl. Þar er sjúkraflugvöllur. Við komum síðan að hestagerði í Háumýrum. Síðan komum við að stíflunni við Þjórsárlón.

29,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Þúfuvötn: N64 32.263 W18 41.125.
Hreysiskvísl: N64 38.953 W18 30.115.
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859. Hestagerði

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Sóleyjarhöfðavað, Blautakvísl, Arnarfellsalda, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort