Út á gaddinn með hann

Greinar

Sjávarútvegur okkar sækir afurðir í takmarkaða auðlind. Fiskifræðingar áætla, hversu mikið sé óhætt að veiða af hverri tegund. Þetta mat þeirra samþykkja málsaðilar undanbragðalítið. Settur er veiðikvóti, sem endurspeglar í stórum dráttum mat fiskifræðinga.

Þjóðaróvinurinn sækir líka afurðir í takmarkaða auðlind. Hinn hefðbundni landbúnaður ber höfuðábyrgð á, að gróður á afréttum minnkar þrisvar sinnum meira en sem svarar uppgræðslu. Ekkert mark er tekið á viðvörunum gróðurfræðinga um hnignun auðlindarinnar.

“Nálin er svo holl”, segja bændur, þegar þeir reka sauðfé á fjall á viðkvæmasta tíma í trássi við óskir landgræðslumanna. Þannig er hratt og örugglega verið að eyðileggja flesta afrétti landsins, fremsta í flokki afrétti Mývetninga, Landmanna og Biskupstungna.

Þótt sjávarútvegurinn taki ekki meira en svo af sinni auðlind, að hún haldi heildarverðgildi sínu, er aflinn oft meiri en góðu hófi gegnir, til dæmis núna. Fiskvinnslan getur ekki tekið við honum. Aukið magn er selt á lágu sumarverði á erlendum uppboðsmarkaði.

Hið lága verð, sem kemur út úr slíkum viðskiptum, hvetur sjómenn og útgerðarmenn til að haga veiðum sínum með auknu tilliti til markaðarins. Útgerðarmenn dreifa togarasölum erlendis og eru að reyna að byrja að stuðla að hliðstæðu framboðsjafnvægi í gámafiski.

Lögmál framboðs og eftirspurnar, gæða og verðlags hafa haldið innreið sína í verzlun sjávarafurða innanlands. Fiskmarkaðir hafa tekið til starfa og fiskverð hefur verið gefið frjálst. Þessar breytingar munu enn treysta stöðu sjávarútvegs sem sjálfstæðs atvinnuvegar.

Í höfuðóvini þjóðarinnar er engin slík samræming á framboði og eftirspurn. Ríkið hefur nýlega gert samning til fjögurra ára um að ábyrgjast óskerta offramleiðslu á dilkakjöti og mjólk, á 11 þúsund lestum af kjöti og 104 milljón lítrum af mjólk, hvort tveggja á ári hverju.

Ríkið reynir að koma hluta af þessu út á innlendum markaði með því að niðurgreiða verð á afurðum heilagra kúa og kinda og með því að leggja ofsahátt kjarnfóðurgjald á afurðir vanhelgra alifugla og svína, sem ekki teljast til hefðbundins landbúnaðar.

Dálítið af kjötinu er gefið Japönum á 15 krónur kílóið og refum á 5 krónur kílóið. Afgangurinn er svo notaður í nokkur ár til að hjálpa vinnslustöðvum til að greiða niður fjármagnskostnað af frystigeymslum. Síðan er honum ekið á haugana, svo sem frægt er orðið.

Ef ríkið væri ekki að reyna að hagræða matarvenjum þjóðarinnar og halda uppi fáránlega dýrri framleiðslu á smjöri, ostum og annarri búvöru, væri markaður hér fyrir um það bil 5.000 lestir af dilkakjöti og um 40.000 lítra af mjólk eða innan við helming núverandi magns.

Ríkið á að hætta niðurgreiðslum, uppbótum, millifærslum, styrkjum og öðrum peningatilfærslum í landbúnaði og gefa verzlun búvöru frjálsa innanlands og milli landa. Þar með réði markaðurinn framleiðslumagninu og ofbitið Ísland fengi langþráðan frið.

Því miður felst hin pólitíska staða í, að flokkar hinnar nýju ríkisstjórnar vilja óbreytta ofbeit og offramleiðslu, og stjórnarandstaðan vill yfirbjóða stjórnina í stuðningi við ofbeit og svokallað jafnvægi í byggð landsins. Enginn einasti flokkur vill lina á vitleysunni.

Íslendingar væru ríkasta þjóð í heimi, ef landbúnaðinum væri hleypt út á gaddinn, þar sem fyrir er frískur sjávarútvegurinn, hornsteinn velmegunar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV