Frá Bolungarvík um Heiðarskarð til Hnífsdals.
Mikið og gott útsýni er úr skarðinu.
Á Vestfjarðavefnum segir um leiðina frá Hnífsdal: “Leiðin fram dalinn liggur um Heiðarbraut og úr þorpinu nokkuð uppi í hlíðinni og heldur áfram inn lyngi vaxna hlíð. Örlitlu framar en Lambaskál, eru tóftir bæjarins í Fremri-Hnífsdal, neðan undir Miðhvilft. Þægilegast er að fylgja slóða af veginum nokkru áður en kemur að Fremri-Hnífsdal upp hlíðina að vatnsveitustíflu, sem þar er, og áfram um slóða ofan á vatnslögn Hnífsdælinga og fara síðan yfir Hnífsdalsá rétt neðan stíflu. Þaðan má fylgja gömlu götunni og kemur fljótlega að sneiðingum, sem liggja nokkuð upp hlíðina, en svo hverfur gatan uns komið er ofar og lengra fram á dalinn.”
Förum frá Bolungarvík eftir vegarslóða suður Syðradal vestan við Syðradalsvatn. Við förum til suðurs eftir vatnsveituslóð upp úr dalbotninum meðfram Fossá upp á Reiðhjalla og áfram suðsuðaustur upp í Heiðarskarð í 500 metra hæð. Niður úr skarðinu austur í Hnífsdal, sumpart um sneiðinga og síðan austnorðaustur dalinn um eyðibýlið Fremri-Hnífsdal til byggðarinnar.
13,5 km
Vestfirðir
Nálægar leiðir: Skálavíkurheiði, Grárófuheiði, Gilsbrekkuheiði, Geirsteinshvilft, Þjófaskörð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort