Heilagsdalur

Frá Hverfjalli í Mývatnssveit umhverfis Bláfjall að Grænavatni í Mývatnssveit.

Heilagsdalur var fjölfarin leið á tímum brennisteinstöku í Fremri-Námum í Ketildyngju. Enn sjást margar samsíða reiðgötur og vörðubrot sums staðar milli Heilagsdalsfjalls og Bláfjallsfjallgarðs. Dalurinn er gróinn háfjallagróðri að vestanverðu með lækjum og lindum, en að austanverðu er sandblásið hraun. Frá fjallaskálanum í Heilagsdal er hægt að fara til austurs með suðurjaðri Skjaldböku að brennisteinsnámunum.

Byrjum á mótum þjóðvegar 1 við Vogaflóa við Mývatn og vegar að Hverfjalli. Förum austur að Hverfjalli austan Grjótagjár. Förum suður að Bláfjallsfjallgarði. Suðaustur brekkurnar á fjallgarðinn og suður í Heilagsdal. Suður með Bláfjalli að austanverðu og suður fyrir Bláfjallshala. Þar snertum við Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Við höldum áfram norðvestur að Sellandafjalli austanverðu og förum norður fyrir fjallið. Þaðan beint norður á jeppaslóð sunnan úr Suðurárbotnum og að Randarskarði, þar sem við mætum leið austan úr Bláhvammi. Áfram norðnorðaustur að Grænavatni.

55,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Heilagsdalur: N65 27.334 W16 47.484.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hverfjall, Almannavegur, Bláhvammur, Biskupaleið, Kerlingardyngja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort