“Ef þingið hefði gert skyldu sína, hefði ég ekki þurft að gera þetta”, sagði Oliver North, fyrrum öryggisfulltrúi Reagans Bandaríkjaforseta, nýlega í yfirheyrslu hjá þingnefnd. Hann hefði ekki þurft að ljúga og stela, falsa skjöl og eyða þeim, ef þingið hefði gert skyldu sína.
Þetta brenglaða viðhorf til leikreglna þjóðfélagsins er gamalkunnugt og útbreitt. Við þekkjum spakmæli, sem segir, að nauðsyn brjóti lög. Við eigum nýjan forsætisráðherra, sem keypti Mjólkursamsöluhús og óperu, af því að Alþingi hafði ekki gert skyldu sína.
Komið hefur greinilega í ljós, að öryggisnefndarliðið í kjallara Hvíta hússins, allt frá Fanny Hall og upp úr, taldi nauðsyn brjóta lög og naut til þess stuðnings þáverandi yfirmanns leyniþjónustunnar, sem nú er látinn. “Stundum verður að fara hærra en lögin”, sagði Fanny.
Efnisatriði þessa máls hafa vakið minni ólgu í Bandaríkjunum en leikhúsið í kringum höfuðpersónurnar. Samanlagt eru Fanny og Ollie og fleira fólk eins og í óraunverulegri James Bond bíómynd. Sem hetjur tjaldsins og skjásins eru þau orðin að almenningseign.
Framganga Olivers Norths í sjónvarpi vekur mikla athygli. Í yfirheyrslum leikur hann hlutverk hins góða skáta, sem ávallt er reiðubúinn. Með barnslegum og heiðskírum svip rekur hann, hvernig hann hefur barizt við hið illa og gert skyldu sína, er þingið brást.
Þetta hefur gert hann að ljúflingi fjölda fólks í Banda ríkjunum. Aðdáunarbréfin berast í stríðum straumum. Háværar hugmyndir eru um, að hann verði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Við liggur, að telja megi, að hann yrði sjálfkjörinn, ef hann kvæntist Fanny Hall.
Vestrænt þjóðskipulag er komið í mikla hættu, þegar viðbrögð mikils fjölda fólks eru í þessum dúr. Áhorfendur eru þá í nokkrum mæli hættir að gera greinarmun á draumaheimi Bonds og raunverulegum afbrotaheimi Norths. Sjónvarpsfréttir og sápa renna saman í eitt.
Sjónvarpið er að eðlisfari afþreyingarmiðill fremur en fréttamiðill. Fréttir þess þarf að beygja undir hin myndrænu lögmál leikhússins. Áhorfendur muna betur eftir einföldum eða flóknum klæðasmekk fréttaþularins en innihaldi fréttanna, sem hann var að segja.
Kenning Marshalls McLuhans er, að miðillinn sjálfur sé skilaboðin, sem hann flytur. Það skilst illa á íslenzku. Hefði hann unnið á Keflavíkurvelli á tíma frægrar gamansögu, hefði hann orðað þetta svo, að hjólbörurnar séu hlassið, sem smyglað er út af vellinum.
Hið alvarlegasta í máli þessu er, að áhorfendur trúa betur fréttum sjónvarps en lesendur trúa fréttum prentaðra fjölmiðla. Þetta hefur hvað eftir annað verið mælt í Bandaríkjunum og raunar einu sinni líka hér á Íslandi. Leikhúsið er trúverðugra en raunveruleikinn.
Bandaríkjamenn eru orðnir svo grátt leiknir af sjónvarpi, að sjónvarpssápa er orðin að veruleika margra. Einföld og brengluð heimsmynd sækir fram. Þetta hefur á síðustu árum meðal annars komið fram í grófari dólgshætti í bandarískri framkomu við bandamannaþjóðir.
Mesta hvalveiðiþjóð heims ætlar að beita viðskiptaofbeldi til að skrúfa fyrir tiltölulega litlar hvalveiðar Íslendinga. Mesta haftaþjóð heims er sífellt að beita viðskiptaofbeldi gegn Japönum og Vestur-Þjóðverjum. Stefnan vestra er að sjá aldrei bjálka í eigin auga.
Hetja hins nýja óraunsæis úr bíómyndum og sjónvarpsfréttum er þessa dagana skúrkurinn Oliver North, sem hefur svo einstaklega skátalegan svip í leikhúsinu.
Jónas Kristjánsson
DV