Hellugnúpsskarð

Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóru-Völlum í Bárðardal.

Hellugnúpsskarð er nokkuð bratt, einkum að vestanverðu, en stutt og auðratað, því að reiðliðin er greinileg. Samhliða reiðleiðinni er línuvegur, sem er torfær jeppum. Þegar þeim vegi sleppir og við nálgumst brún Bárðardals, verður sums staðar að gæta þess að tapa ekki slóðinni í mýrum og missa ekki af vörðunum tveimur, sem sýna leiðina niður í dal að Stóru-Völlum.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er kjörinn áningarstaður á ferðalögum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna.

Förum frá Sörlastöðum í 240 metra hæð suður um einn kílómetra og þaðan upp sneiðinga austur í Hellugnúpsskarð. Fylgjum línuveginum upp úr gróðrinum og beygjum svo fljótlega til vinstri inn á reiðslóðina. Bæjarfjall er norðan skarðsins og Hellugnúpur sunnan þess. Skarðið fer í 600 metra hæð. Við förum yfir línuveginn á reiðslóð suðaustur á fjallsbrún ofan við Hliðskóga í Bárðardal. Þar á brúninni er slóðin merkt með tveimur vörðum. Við förum skáhallt niður hlíðina að Stóru-Völlum í Bárðardal, sem eru í 200 metra hæð.

14,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Bíldsárskarð, Víðiker, Engidalur.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Hellugnúpur, Hörgsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson