Vestræn ríki eru sundurþykkari um þessar mundir en þau hafa lengi verið. Ekki eru horfur á, að ástandið batni. Miklu frekar má reikna með, að þau rási enn frekar sitt á hvað á næstu árum. Ágreiningsefnin eru helzt í varnarmálum og alþjóðlegum viðskiptum.
Í flestum tilvikum hafa úfar tilhneigingu til að rísa í samskiptum Bandaríkjanna annars vegar og annaðhvort Japans eða ríkja Evrópubandalagsins hins vegar. Þótt Bandaríkin séu að þessu leyti í sviðsljósinu, er óvíst, að þeim einum sé um að kenna, þegar tveir deila.
Til dæmis er eðlilegt, að Bandaríkjamenn hafi áhyggjur af, að Vestur-Evrópa leggi of lítið til sameiginlegra varna. Velmegun ríkja Evrópubandalagsins er orðin hin sama og í Bandaríkjunum og íbúafjöldinn raunar meiri en í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.
Bandaríkjamenn leggja sífellt meiri áherzlu á, að Vestur-Evrópa sjái sjálf um og kosti sínar varnir, svo að Bandaríkin geti einbeitt sér að vandamálum utan Evrópu. Sú tíð nálgast, að Bandaríkjamenn fækki verulega í herliði sínu í löndum evrópskra bandamanna.
Til viðbótar sjá Evrópuríki Atlantshafsbandalagsins nú fyrir sér, að yfirvofandi sé samkomulag heimsveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, um róttækan samdrátt í kjarnorkuviðbúnaði. Þá má búast við, að gisni hin bandaríska kjarnorkuregnhlíf Evrópu.
Viðbrögðin eru margvísleg. Talað hefur verið um að endurreisa hið andvana fædda varnarbandalag Evrópu. Í Vestur-Þýzkalandi heyrast raddir um, að stofna þurfi sameiginlegan her Frakka og Þjóðverja undir frönskum yfirhershöfðingja og franskri kjarnorkuregnhlíf.
Aðrir telja skynsamlegt, að Vestur-Þýzkaland stefni að sameiningu við Austur-Þýzkaland í hlutlausu ríki, sem verði þungamiðja Mið-Evrópu og hafi víðtæk áhrif á Austur-Evrópu, þar sem nú eru leppríki Sovétríkjanna. Þeir telja sögulegt samhengi í slíkri stefnu.
Altjend má reikna með, að væntanlegur samningur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um samdrátt kjarnorkuviðbúnaðar muni verða fyrsta skrefið frá núverandi jafnvægiskerfi Atlantshafs- og Varsjárbandalaga. Núgildandi trúarsetningar geta orðið harla lítils virði.
Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þessari framvindu. Við þurfum að átta okkur á, hvaða möguleikum við getum haldið opnum og hvert við viljum helzt halla okkur, þegar á reynir. Við höfum ekki eigin varnir að neinu gagni og erum háðir bandalögum við nágranna.
Ofan á þetta sjáum við fyrir, að samningar um mikla fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu geta leitt til aukins kjarnorkuviðbúnaðar í Norður-Atlantshafi. Þar með erum við komnir enn fjær gömlu einangruninni og nær spennumiðju í glímu heimsveldanna.
Við stöndum einnig andspænis örlagaríkum ákvörðunum um afstöðu okkar í breyttu mynztri viðskipta. Milli Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins fara vaxandi hin efnahagslegu illindi. Hver sakar annan um haftastefnu og magnar viðskiptastríð Vesturlanda.
Hvort sem litið er á samstarf um varnir eða um verkaskiptingu í viðskiptum og efnahagsmálum, er ljóst, að gífurlegir brestir eru komnir í hina tiltölulega heildstæðu mynd iðnþróaðra ríkja vestantjalds. Brestunum fjölgar og þeir gliðna, þótt reynt sé að mála yfir þá.
Við erum þjóð, sem lifum annars vegar á alþjóðlegri fríverzlunarstefnu og hins vegar í hernaðarlegu skjóli. Brestirnir varða okkur meira en flestar aðrar þjóðir.
Jónas Kristjánsson
DV