Fulltrúar Íslands eru nú í Washington að reyna að fá bandarísk stjórnvöld til að hætta við að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna hvalveiðanna, sem við köllum vísindaveiðar og stundum enn í trássi við heilbrigða skynsemi og hagsmuni okkar í utanríkisviðskiptum.
Hingað til hafa Bandaríkjamenn verið hinir þverustu og vísað til laga, sem skylda stjórnvöld til að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna þessa leiðindamáls. Er nú svo komið, að lagakrókar og orðhengilsháttur vísindaveiða duga okkur tæpast lengur í vörninni.
Hvalveiðikárínur okkar eru dæmi um, hvernig þrýstihópar geta stjórnað viðskiptastefnu voldugra ríkja. Þar vestra ráða ferðinni tiltölulega fámennir en afar háværir hópar róttækra náttúru- og dýravina, alveg eins og hér stjórna afar þröngir eiginhagsmunir Hvals hf.
Fleira getur orðið okkur að harmi en hin mikla og síðbúna vísindahugsjón. Við gerum okkur vonir um að geta selt mikið af eldislaxi til Bandaríkjanna. Sá útflutningur mun rekast á þrönga hagsmuni bandarískra laxeldismanna, svo sem Norðmenn hafa fundið fyrir.
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur hótað innflutningsbanni á norskan eldislax á þeim forsendum, að laxinn sé fóðraður á rækjuskel, sem geti haft að geyma skaðleg efni. Rækjuskel er einmitt fóðrið, sem Íslendingar nota til að gera laxinn rauðan og girnilegan.
Skaðsemi rækjuskeljar er yfirskin. Matvælaeftirlitið bandaríska er notað þar á svipaðan hátt og embætti yfirdýralæknis hér á landi til að vernda innlenda hagsmuni. Hér er bannað að flytja inn kjöt til að vernda landbúnaðinn, en ekki til að varðveita heilsu neytenda.
Við getum ekki kvartað um höft í Bandaríkjunum og öðrum löndum, þegar við sjálf bönnum að flytja til landsins kjöt og smjör, osta og stundum grænmeti. Við erum sjálf á fullu í sjálfseyðingarstefnu haftanna. Við tökum þátt í leik, sem heitir: Allir gegn öllum.
Þegar sérhagsmunir ríkja, verða almannahagsmunir að víkja. Haftastefnan er rekin á kostnað neytenda. Í Bretlandi var nýlega reiknað út, að verndun innlendrar framleiðslu á skóm úr gerviefnum kostaði brezkt þjóðfélag tólf sinnum meira en fríverzlun mundi gera.
Íslenzkir neytendur borga íslenzka haftastefnu með því að greiða miklu meira og í sumum tilvikum margfalt meira en þeir þyrftu fyrir kjöt og smjör, osta og grænmeti. Við gætum öðlazt glæsileg lífskjör með því einu að leyfa frjálsa milliríkjaverzlun þessara vara.
Ef Bandaríkjamenn refsa okkur fyrir hvalveiðar með því að leggja stein í götu íslenzks freðfisks, eru þeir um leið að þrengja samkeppnina og hækka vöruverð í landinu. Hið sama er að segja, ef þeir reyna að koma í veg fyrir innflutning á norskum og íslenzkum eldislaxi.
Því miður blása haftavindar í Bandaríkjunum. Fyrir þinginu í Washington liggja nokkur hundruð þingmannafrumvörp, sem stefna að varðveizlu þröngra hagsmuna gegn innflutningi. Smám saman er þannig verið að smíða efnahagslífinu verndað umhverfi.
Fáar þjóðir eru eins háðar utanríkisviðskiptum og Íslendingar eru. Við ættum því að hafa forustu um að afnema eigin höft á viðskiptum milli landa og beita okkur af alefli á alþjóðlegum vettvangi fyrir eins mikilli fækkun slíkra hafta og frekast er unnt.
Allir tapa í leiknum: Allir gegn öllum. En mest tapa þeir, sem ekki telja sig þola vinda erlendrar samkeppni og búa sér, með höftum, verndað umhverfi sérhagsmuna.
Jónas Kristjánsson
DV