Stofnun trausti rúin

Greinar

Fyrir nokkrum áratugum var útilokað að rökræða af viti um þjóðhagslegar stærðir. Hagstofur voru veikburða, að svo miklu leyti sem þær voru til. Deiluaðilar, til dæmis í vinnudeilum, fóru sínu fram og bjuggu til eigin mynd af þjóðarhag eftir þörfum hverju sinni.

Smám saman lagaðist þetta töluvert. Samtök atvinnurekenda og launamanna fóru að geta talað saman á sameiginlegu tungumáli hagtölufræðinnar. Um tíma var mest mark tekið á upplýsingum forvera þeirrar stofnunar, sem nú er kölluð Þjóðhagsstofnun.

Síðan jókst samkeppni í hagspám. Samtök öflugustu aðila vinnumarkaðarins komu sér upp eigin hagdeildum. Hið sama gerðist hjá öðrum heildarsamtökum og allra stærstu stofnunum og fyrirtækjum. Tölur sumra þessara fóru oft nær hinu rétta en Þjóðhagsstofnunar.

Fyrir tæplega tveimur árum var farið að kvarta á nýjan leik yfir, að hagspár Þjóðhagsstofnunar ein kenndust af þjónustu við sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Stofnunin spáði þá jafnan miklum mun lægri verðbólgu en aðrar hagdeildir í þjóðfélaginu gerðu.

Þá hafði ríkisstjórnin lagt fram fjárlagafrumvarp, sem ljóst var, að mundi stuðla að meiri verðbólgu en annars yrði. Þjóðhagsstofnun tók ekki tillit til þessa verðbólguhvata í næstu verðbólguspá, þótt aðrar hagstofur, óháðar ríkinu, gerðu það á almennri spástefnu.

Þáverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur dregið eðlilega ályktun af gagnrýninni, sem stofnun hans hefur sætt á síðustu árum. Hann hefur fundið sér heppilegri vettvang í stjórnmálum. Þar getur hann nýtt diplómatíska hæfileika, sem áður sköðuðu reiknistofnunina.

En enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Ástandið hefur versnað með nýjum forstjóra. Forsmekkinn fékk þjóðin, þegar Þjóðhagsstofnun spáði mildri verðbólgu og indælum þjóðarhag fyrir kosningar, þótt allir aðrir vissu, að ríkið kynti undir verðbólgu.

Eftir síðustu áramót gekk ríkisstjórnin til verðbólgusamninga við opinbera starfsmenn til að kaupa sér frið fyrir kosningar. Í sama skyni var hún einnig að ýmsu öðru leyti örlát á fé skattgreiðenda. Þessa verðbólguhvata vanmat Þjóðhagsstofnun í hagspám sínum.

Ekki varð öllum þó ljóst, hvað var á seyði í Þjóð hagsstofnun, fyrr en Efnahagsþróunarstofnunin birti Íslandsspá sína í júní. Þar var ríkisstjórnin gagnrýnd óvenju harðlega fyrir skort á aðhaldi í fjármálum ríkisins sjálfs. Var hún vöruð við frekari hallarekstri.

“Skýrsla OECD undirstrikar mikinn árangur”, voru hin opinberu viðbrögð forstjóra Þjóðhagsstofnunar við gagnrýninni að utan. Hann lagði sérstaka áherzlu á að verja fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar og sagði Íslandsspána síður en svo vera áfellisdóm yfir henni.

Steininn tók svo úr, þegar Þjóðhagsstofnun afhenti nýmyndaðri ríkisstjórn nýja þjóðhagsspá, þar sem verðbólguspáin hafði nærri tvöfaldast á fimm mánuðum, úr 11,5% í 20%. Þjóðhagsstofnun var, eins og í fyrri spá sinni, réttum yfirvöldum til þjónustu reiðubúin.

Gömlu ríkisstjórninni hentaði rétt fyrir kosningar að fá þjóðhagsspá, sem teldi kjósendum trú um, að gífurlegt góðæri ríkti fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar. Nýju ríkisstjórninni hentar hins vegar að fá spá, sem telur launafólki trú um, að allt sé á hverfanda hveli.

Þjóðhagsstofnun, sem venur sig á að þjónusta ósk hyggju ríkisstjórna á færibandi, er rúin öllu trausti. Réttilega er ekkert mark lengur tekið á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV