Frá Stóra-Kálfalæk á Mýrum að Snorrastöðum í Hnappadal.
Þetta er austasti hluti Löngufjara, þar sem farið er yfir Hítará og Kaldá.
Hér komst Þórður kakali árið 1242 naumlega út á fjörurnar með 200 manna lið á flótta undan 700 manna liði Kolbeins unga. Líklega frá Jörfa, sem er sunnan við Kaldá. Síðan féll flóðið að, áður en Kolbeinn kæmist yfir. Frá Skálholti til Stykkishólms riðu menn Þórðar einhesta um 200 km leið á rúmlega 36 stundum enda um líf og dauða að tefla. Það er samkvæmt samtímaheimild Sturlungu. Slíkt gera menn ekki nú á tímum. Að fornu lögðu menn harðar að sér í ferðum milli sveita og landshluta, jafnvel að vetrarlagi, og létu vosbúð ekki aftra sér. Þéttur lopi hélt hita á mönnum.
Förum frá Stóra-Kálfalæk suðvestur með veginum að fjörunni við Krákunes. Þar förum við út á Akraós og höldum fyrst vestur af norðri unz við komum að hólmum í miðjum ósnum. Þar sveigjum við beint til norðurs, förum yfir Hítará og tökum land öðru hvoru megin við lítinn ós að baki hóls í Hítarnesi. Förum upp á nesið og strax um blautar mýrar áður en við komum á þurrar götur vestur og síðan norður fyrir girðingu framhjá eyðibýlinu Selgarði og síðan um Lengjur. Við Bratteyri austanverða förum við út á Kaldárós, ekki af eyrinni sjálfri, því að bratt er af henni. Síðan beint í norður, förum austan við Kaldá milli Jörfaeyja og Jörfaness, förum yfir Kaldá og tökum land tvöhundruð metrum vestan við Kaldá. Að lokum förum við upp með Kaldá til Snorrastaða.
17,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir
Ekki fyrir göngufólk
Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.
Nálægir ferlar: Akrar, Saltnesáll, Múlavegur, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson