Pólitískur sumartími

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekki fengið við upphaf ferils síns hinn venjulega tíma friðar og hvíldar, sem notið hafa flestar ríkisstjórnir, er myndaðar hafa verið í sumarfríi Alþingis. Þvert á móti hefur allt gengið á göflunum í kringum hana. Og þetta er af hennar eigin völdum.

Sjálfur stjórnarsáttmálinn vakti mikla óánægju langt út fyrir raðir stjórnarandstöðunnar. Síðan kom fálmið og fátið við framkvæmd og frestun fyrstu aðgerða. Landbúnaðurinn hefur fengið að leika lausum hala. Útgáfa spariskírteina og nýtt söluskattstig magna ófriðinn.

Merkilegt er, að ríkisstjórn skuli lenda í svona miklum hremmingum við upphaf ferils síns. Eiginlega ætti hún að vera mjög sterk. Hún hefur verulegan þingmeirihluta að baki sér og tiltölulega ósamstæða stjórnarandstöðu á móti sér. Hún ætti því að þora að taka á málum.

Um þessar mundir þarf þjóðin einmitt fumlausa ríkisstjórn, sem þorir. Óveðursskýin hrannast á loft. Verzlunarráð spáði fyrr í vikunni stóraukinni verðbólgu næstu árin, gengislækkun eftir áramót og átökum á vinnumarkaði í kjölfar verðbólgu og skattahækkana.

Álit Verzlunarráðs er óvenju harðort. Þar segir, að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattheimtu gangi þvert á meginstefnu hennar í skattamálum. Ennfremur, að ekkert hafi verið stokkað upp í allt of dýrum velferðarmálum á borð við landbúnað og húsnæðislánakerfi.

Ríkisstjórnin hefur mest misstigið sig í landbúnaðarmálum og ríkisfjármálum. Óbreytt landbúnaðarstefna var fyrsta samkomulagsatriðið. Stjórnarsáttmálinn staðfesti nýja búvörusamninginn og fjögurra ára þrælkun neytenda og skattgreiðenda í þágu kinda og kúa.

Landbúnaðarráðherra hefur á fyrstu vikum ríkisstjórnarinnar fengið að ganga berserksgang við að efla þrönga sérhagsmuni í landbúnaði. Einkum hefur honum orðið verulega ágengt við að þrengja völ neytenda á grænmeti á hagstæðu verði. Full einokun er í augsýn.

Meira að segja hefur íslenzkum málvenjum verið breytt á svipaðan hátt og alræðisstjórnin gerði í sögunni “1984″ eftir George Orwell. Að undirlagi landbúnaðarráðherra notar ríkisstjórnin orðin “nýtt” yfir gamalt grænmeti og “markað” yfir grænmetiseinokun.

Fyrsta skref ríkisstjórnarinnar í eigin fjármálum var að hafna niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri og taka upp stefnu hækkaðra skatta, sem mun leiða til átaka á vinnumarkaði að mati Verzlunarráðs. Hefðbundinn landbúnaður og önnur hefðbundin hít eru heilagar kýr.

Annað skrefið í ríkisfjármálunum var að reyna að hækka vexti á spariskírteinum án þess að hækka þá. Stjórnin reyndi að komast hjá hinni óhjákvæmilegu staðreynd, að mögnuð innrás ríkissjóðs á lántökumarkaðinn mun breyta hlutföllum framboðs og eftirspurnar.

Ríkisstjórnin virðist hafa takmarkaðan skilning á fjármálum. Hún kvartar um, að aukinn ríkishalli stafi af vansköttun ársins. Samt er sífellt verið framhjá fjárlögum að greiða úr ríkissjóði og skuldbinda hann á annan hátt til að kaupa óperur og mjólkursamsölur.

Þriðja skref stjórnarinnar fólst í að bæta við söluskattsþrepi, sem leggst á harðfisk, en ekki saltfisk, suma svaladrykki, en ekki aðra, soðin svið, en ekki ósoðin og svo framvegis út í það fáránlega. Hún hefur flækt söluskattinn og boðið heim auknum skattsvikum.

Verkhræðsla og fálm á þessum mörgu sviðum hefur magnað ótrú fólks á stjórninni, aflað henni stjórnarandstöðu utan Alþingis og gert sumarfríið pólitískt.

Jónas Kristjánsson

DV