Hóf er á örlætinu bezt

Greinar

Húsnæðislánakerfið má laga verulega með því að hætta að niðurgreiða vexti af lánum til annarra en þeirra, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti. Þeir, sem eiga íbúðir fyrir eða eru að minnka við sig húsnæði, eigi kost á húsnæðisláni með raunvöxtum.

Undanfarið hefur húsnæðislánakerfi ríkisins keypt peninga af lífeyrissjóðunum á 6,5% vöxtum og endurlánað þá á 3,5%. Niðurgreiðsla ríkisins nemur 3%, nærri helmingi raunvaxtanna. Þessi niðurgreiðsla er hugsuð sem aðstoð við ungt fólk, sem er nýlega byrjað á búskap.

Deila má um, hvort yfirleitt sé rétt að greiða niður raunvexti húsnæðislána, alveg eins og deilt er um raun vexti námslána. Í báðum tilvikum ríkir þó réttmætur pólitískur skilningur á, að ungu fólki reynist ella harðsótt að brjótast til mennta og festu í þjóðfélaginu.

Stefnan gengur hins vegar út í öfgar, þegar allir fá slík vildarkjör með sjálfvirkum hætti. Félagar í lífeyrissjóðum, sem fjármagna húsnæðislánakerfi ríkisins, fá sjálfvirkan aðgang að kerfinu á fimm ára fresti, þótt þeir séu að bæta við sig íbúð eða fara í minni íbúð.

Ógöngurnar eru orðnar slíkar, að samþykkt hefur verið umsókn frá manni, sem á fimm íbúðir fyrir. 1.200 lánshæfar umsóknir eru frá aðilum, sem hver um sig á fyrir yfir þrjár milljónir í skuldlausri eign. Samanlagt geta lán til þeirra numið hálfum öðrum milljarði króna.

Sóknin í ódýra lánsféð er orðin svo mikil, að tveggja ára biðtími er eftir lánum. Peningar þessa árs og hins næsta munu rétt rúmlega duga fyrir umsóknum, sem voru komnar fyrir 12. marz. Þeir, sem lögðu inn umsóknir í júnílok mega bíða úrlausnar fram á haustið 1989.

Svona fer gjarna, þegar reynt er að skipuleggja góðmennsku af hálfu hins opinbera. Menn sjá ekki fyrir hliðarverkanir og sitja uppi með meira eða minna ónothæft kerfi. Segja má, að húsnæðislánakerfi ríkisins sé risavaxin góðgerðastofnun án fjárhagslegs innihalds.

Samt er þetta nokkurn veginn nýtt kerfi, sem komið var á fót í tíð síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við samtök launafólks og atvinnurekenda. Og raunar hefur það veitt stórauknu fé til húsnæðislána og stórhækkað lánin, svo að miklu fleiri en áður geta eignazt húsnæði.

Hins vegar var strax vitað, að kerfið hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við háleitt markmið sitt. Þáverandi húsnæðisráðherra þoldi ekki að heyra slíkt og bolaði úr starfi þeim embættismanni, sem gaf almenningi beztar upplýsingar um raunverulega stöðu mála.

Þetta var Stefán Ingólfsson verkfræðingur, sem síðan hefur skrifað fjölda kjallaragreina um húsnæðismál í DV. Hinn nýi húsnæðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur nú fundið upp á því snjallræði að ráða hann sem sérstakan ráðgjafa í húsnæðismálum.

Þetta er merkasta aðgerð hinnar nýju ríkisstjórnar og hefur þegar leitt til, að spilin liggja á borðinu, almenningi til sýnis. Félagsmálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem alvarleg staða og þver brestir kerfisins eru skýrð á auðskilinn hátt.

Lausn málsins felst ekki í að hrúga í húsnæðismálin meiru af opinberu fé, sem ekki er til. Lausnin hlýtur miklu fremur að vera sú að draga úr lánaþorsta eignafólks með því að krefja það um raunvexti. Þannig munu biðlistar grisjast og færri en ella bætast á þá.

Hinir niðurgreiddu vextir eiga að vera gjöf þjóðfélagsins aðeins til fólks, sem er að byrja lífsbaráttuna og er að reyna að eignast þak yfir höfuðið í fyrsta sinn.

Jónas Kristjánsson

DV