Holtsdalur

Frá Skaftárdal um Holtsdal að Hunkubökkum.

Gamla þjóðleiðin milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftártungu. Þetta er fögur og gróðursæl leið, einkum þegar komið er í skógargötuna niður Kleifar. Ein eftirsóttasta reiðleið landsins, en komst í pattstöðu, þegar Seðlabankinn girti af dalinn. Eftir útistöður við hestamenn lét bankinn af frekju sinni og gerði hlið á girðinguna. Hestamenn geta því óáreittir farið þessa lögvörðu reiðleið, þar sem engir jeppar eiga að geta verið á ferð, fyrr en komið er að sumarhúsum Seðlabankans neðst í dalnum. Fallegt og gróðursælt er einnig frá dalnum og austur að bænum Holti.

Förum frá Skaftárdal. Nú er brú á Skaftá við Skaftárdal, en áður var farið á vaði neðan við núverandi brú. Við förum suðvestur með Skaftá austanverðri og síðan hlíðina upp Skafl og áfram norður af austri í Selfellsmýrar. Förum þar fyrir sunnan Austastafell í 320 metra hæð. Síðan suðaustur um eyðibýlið Hervararstaði að Bunuskeri og áfram suður í Holtsdal milli Skálarheiðar að vestan og Steinsheiðar að austan og um kjarri vaxnar Kleifar niður í Fremri-Dal. Förum niður dalinn um Sótatungur meðfram Holtsá út á jeppaveg, sem liggur austur um eyðibýlið Böðmóðstættur og um Holt að fjallvegi upp í Laka. Við förum austur og niður með þeim vegi framhjá Hellisnesi að Hunkubökkum við veg 206 yfir Skaftá.

20,3 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Skaftá, Laki, Leiðólfsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson