Hafið hefur löngum verið mikilvægur þáttur í hervaldi. Grikkir byggðu landnám sitt á sæveldi. Rómverjar héldu heimsveldi sínu saman á skipum. Portúgalir og Spánverjar sigruðu heiminn á flotanum. Bretar tóku við sem flotaveldi og urðu helzta nýlenduþjóðin.
Eftir síðari heimsstyrjöldina voru Bandaríkin helzta flotaveldi heims, alls ráðandi á Atlantshafi og Kyrrahafi. Smám saman hafa Sovétríkin tekið upp þráðinn í samkeppninni. Þegar nýtt flotaveldi ógnar gamalgrónu flotaveldi, er líklegt, að spenna færist í leikinn.
Þegar rætt er um, að þungamiðjan í spennu flotaveldanna hafi færzt nær Íslandi, byggist það á hinum miklu flotastöðvum, sem Sovétríkin hafa komið upp við Kolaskaga. Barentshafið hefur leyst Eystrasalt og Svartahaf af sem langmesta flotahreiður heimsveldisins.
Um nokkurt skeið hafa Bandaríkin og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu byggt viðbúnað sinn gegn hinni nýju ógnun á því að geta lokað svonefndu Giuk-hliði, en það er herfræðilegt nafn á hafþrengslunum milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja.
Eftirlitsstöðin á Keflavíkurvelli er hlekkur í varnar-eðju, sem liggur þvert yfir Atlantshaf frá Thule um Færeyjar til Skotlands. Sem slík er hún í senn hernaðarlega mikilvægur og hernaðarlega viðkvæmur staður, er hefur valdið miklum deilum hér heima fyrir.
Tilvist stöðvarinnar getum við og höfum afsakað með því að benda á, að um ómunatíð hafa menn ýmist myndað bandalög með nágrönnum sínum eða vinum. Í Atlantshafsbandalaginu erum við með nágrönnum okkar og þeim, sem við eigum mest sameiginlegt með.
Önnur þessara forsenda hefði út af fyrir sig verið nægileg, en við höfum þær báðar. Að vísu er vinskapur ríkja Atlantshafsbandalagsins stundum blendinn, þegar kemur að sumum hagsmunamálum. En þau hanga þó saman á að búa við skásta þjóðskipulag í heimi.
Hingað til höfum við tekið því með þolinmæði, er mikilvægi Keflavíkurvallar hefur verið talið aukast í takt við vöxt flotaveldis Sovétríkjanna við Kolaskaga. Við höfum fallizt á margvíslegar endurbætur, þar á meðal á smíði ratsjárstöðva í öllum landshornum.
Hugmyndir í Bandaríkjunum um að færa átakalínu flotaveldanna til norðurs frá svonefnda Giuk-hliðinu hafa ekki veruleg áhrif á hina hernaðarlegu spennu, sem segja má, að tengist Keflavíkurvelli og Íslandi. Líklegt er þó, að hún minnki fremur en vaxi.
Ef gert er ráð fyrir, að átök flotaveldanna verði í nágrenni Jan Mayen og Svalbarða, er Ísland komið í þægilegri stöðu en áður að baki hættulegustu víglínunni. Þess vegna getum við fagnað hinum bandarísku hugmyndum um nýja átakalínu í Atlantshafinu.
Þær valda því, að í bili eru horfur á, að spennan við Ísland minnki. Því miður er ekki við langvinnu spennusigi að búast. Önnur atriði og fjarlægari munu valda því, að hafið í heild verði enn mikilvægari vígvöllur en áður var, þótt hlutföll einstakra svæða breytist.
Ef risaveldin ná samkomulagi um mikla fækkun kjarnaodda á landi, er líklegt, að um tíma að minnsta kosti muni þau leggja stóraukna áherzlu á kjarnaodda sína í hafi, einkum þá, sem kafbátar þeirra bera. Þar með flytzt spennan í auknum mæli af landi og út á haf.
Tímabundið spennusig í hafinu umhverfis okkur getur fyrr en varir breytzt í nýtt spennuris, sem færir okkur ný úrlausnarefni í samskiptum við önnur ríki.
Jónas Kristjánsson
DV