Laugaás

Veitingar

Frumkvöðull stefnunnar

Laugaás er afar traustur vinur, sem heldur nákvæmlega stefnunni, er hann tók strax í upphafi. Þar er farið eftir hvorugri íslenzku hefðinni að slaka á gæðunum, þegar fer að reyna á úthaldið, eða elta allar nýjungar, sem rekur á fjörurnar. Laugaás er og hefur alltaf verið sjávarréttahús, þar sem fá má góðan mat fyrir lítið fé, frumkvöðull slíkra staða. Festan og úthaldið stafa af, að eigendurnir eru alltaf á vaktinni og elda sjálfir.

Laugaás verður bezt lýst með samanburði við tvo aðra uppáhaldsstaði mína, Múlakaffi og Úlfar og Ljón. Laugaás er mjög líkur Úlfari, en er heldur ódýrari en hann og ekki eins eindreginn sjávarréttastaður. Laugaás beitir ekki alveg eins góðri matreiðslu, státar ekki af salatborði eins og Úlfar, en býður gagnstætt honum litla og ódýra eftirrétti, í sumum tilvikum innifalda í verðinu. Laugaás er heldur fallegri staður, en veitir ekki alveg eins notalega þjónustu.

Nýr seðill tvisvar á dag

Til samans sjá þessir tveir staðir um, að íbúar og gestir höfuðborgarinnar geti fengið gott að borða fyrir lítið fé, þótt þjónusta sé veitt til borðs. Til samans halda þeir einnig á lofti gildi sjávarrétta í mataræði landsmanna og hinni sjálfsögðu stefnu að skipta daglega eða tvisvar á dag um matseðil.

Verðið í Laugaási á þríréttaðri máltíð er samkvæmt reikningsaðferð minni svipað og í Múlakaffi, sem er sjálfsafgreiðslustaður og raunar sennilega hinn bezti slíkra í borginni. Grunnverð súpu og aðalréttar er hærra í Laugaási, en aukahluta, svo sem eftirréttar og kaffis er lægra. Þar sem Múlakaffi er sjálfsafgreiðslustaður, er mikið af matnum geymt heitt í stálkerjum við diskinn. Gestir rogast síðan með birgðirnar til borðs. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til lakari matar og til kólnunar aðalréttar, meðan súpan er borðuð. Í Laugaási mætum við ekki slíkum vanda. Hver réttur er séreldaður, meðan gesturinn borðar súpuna, og síðan færður honum til borðs.

Látlaust menningarheimili

Laugaás er lítill staður og oft þröngt setinn á annatímum. Merkilegt er, að álagið hefur ekki gert matstofuna þreytulega. Útlitið er frísklegt og geðslegt eins og á fyrsta degi. Laugaás minnir dálítið á gróið og látlast menningarheimili hreinlætis.

Á matseðlinum eru oftast um 15-20 réttir, þar á meðal súpa dagsins og eftirréttur dagsins. Hinir skiptast nokkurn veginn jafnt milli fiskrétta og kjötrétta. Í stórum dráttum breytist matseðillinn oft aðeins að hluta til frá degi til dags. Samt endurspeglar hann breytingar á framboði hráefnis, einkum fisks. Öðrum réttum, sem minna eru háðir framboði, er skipt út og inn til að auka fjölbreytnina.

Súpurnar eru yfirleitt góðar, einkum hinar tæru. Ég man eftir góðri grænmetissúpu og mjög góðri spergilsúpu, sem kölluð var prinsessusúpa. Ég man líka eftir annarri spergilsúpu, sem var hversdagsleg og hveitileg, enda hét hún ekki jafn virðulegu nafni, var bara spergilsúpa, kölluð rjómalöguð. Það lýsingarorð gefur mér af slæmri reynslu ætíð grunsemdir um, að hveitisúpa búi að baki.

Matreiðslan rokkar

Nýlega hef ég fengið í Laugaási frábærlega léttsteikt og mjúkt heilagfiski með léttsteiktu grænmeti og rækjum. Einnig dálítið ofsteikt og heldur of þurrt heilagfiski með miðlungi þunnri eggjasósu. Dæmin tvö af heilagfiski og spergilsúpu sýna mér, að matreiðslan rokkar nokkuð upp og niður, eins og hún hefur raunar ætíð gert. Kokkarnir eru einfaldlega misjafnlega nákvæmir, til dæmis í eldunartíma.

Af öðrum aðalréttum, sem ég hef nýlega prófað, má nefna góðan steinbít með hæfilega litlu magni af brie-osti. Ennfremur frábæran svartfugl, rauðan og meyran, einn hinn bezta, sem ég hef fengið, borinn fram með eplasalati.

Dæmi um eftirrétti dagsins eru góður búðingur í tveimur lögum með þeyttum rjóma og ávaxtaskreytingu, svo og ferskt og gott trifle, létt í maga. Þegar eftirréttir eru ekki innifaldir í matarverðinu, kosta þeir aðeins 60 krónur. Kaffi eftir mat er sæmilegt og kostar aðeins 20 krónur.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 598 krónur í Laugaási. Það er lítið fé fyrir góða veizlu.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
Prinsessusúpa
495 Steiktur fiskur gratineraður
480 Gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði
495 Pönnusteiktur karfi St. Germain
495 Steiktur skötuselur með camembert
550 orly-steiktur skötuselur béarnaise
580 Steikt rauðsprettuflök með rækjum og brie
580 Pönnusteikt smálúða meistarans
580 Steiktur Laxalóns-silungur meuniere
495 Bixiematur með pönnueggi
530 Indverskur karríréttur með hrísgrjónum
530 Léttsteiktur svartfugl með eplasalati
540 Grillsteiktur kjúklingur
540 Köld nautatunga með kartöflusalati
670 Ali-hamborgarlæri með rauðvínssósu
695 Glóðarsteikt lambalæri béarnaise
720 Nautakótiletta hússins
795 Marineraðar lambalundir í rjómasósu
60 Búðingur. Fylgdi ókeypis með rauðsprettu, smálúðu, lamba- og nautakjöti.

DV