Vinsælt vandræðabarn

Greinar

Eitt helzta vandræðabarn ríkisins, Útvegsbankinn, er skyndilega orðið að söluhæfri vöru, sem margir vilja eignast. Svo er fyrir að þakka samvinnuhreyfingunni, sem fyrir helgina lagði fram djarft og gilt tilboð í bankann, innan þess ramma, sem ríkið hafði sett sölunni.

Þeir, sem litu málefnalega á tilboð Sambands íslenzkra samvinnufélaga og fylgifyrirtækja þess, sáu, að því var ekki hægt að hafna, eins og fjármálaráðherra orðaði það réttilega. Samvinnuhreyfingin ein hafði boðizt til að taka Útvegsbanka-kaleikinn af ríkissjóði.

Tilþrif Sambandsins ollu framámönnum Sjálfstæðisflokksins nokkrum hugklofa með tilheyrandi geðshræringu. Annars vegar fól tilboðið í sér þátt í þeirri stefnu flokksins, að ríkið losaði sig við fyrirtæki sín. Hins vegar var kaupandinn ekki flokknum að skapi.

Þegar flokksbroddarnir höfðu auglýst vandræði sín á misjafnlega broslegan hátt, gafst þeim tími til að átta sig á, að eina vörnin í stöðunni fælist í, að einkaaðilar, sem flokknum væru þóknanlegri en gamli óvinurinn í SÍS, byðu ríkinu betur í hlutabréf bankans.

Fyrir hádegi í dag hófst fundur ríkisstjórnarinnar, þar sem fjalla átti um, hvernig hún eigi að meta biðlana, sem eru orðnir tveir. Fjárhagslega er skynsamlegast að selja bankann þeim aðila, sem bezt býður að lokum, en siðferðilega ætti SÍS að hafa forgang.

Þótt hinn nýi hópur útgerðarmanna og Iðnaðarbankamanna hafi boðið nokkru betur en SÍS-hópurinn, verður hið minnsta að gefa hinum síðarnefnda tækifæri til að hækka sig. Úr þessu getur orðið hið skemmtilegasta uppboð, afar nytsamlegt ríkissjóði.

Ekki dugir að hafna SÍS á þeim forsendum, að æskilegt sé, að bankinn verði í höndum margra. Ef litið er á Sambandið og fylgifiska þess sem einingu, væntanlega hlynnta Framsóknarflokknum, má líta á einkaframtakshópinn sem einingu, hlynnta Sjálfstæðisflokknum.

Raunar svipar samvinnuhreyfingunni að ýmsu leyti til almenningshlutafélags. Formlegir eigendur eru afar margir, skipta raunar tugum þúsunda. Ef tilboði Sambandsins verður tekið, munu eigendur að baki bankans skipta þessum tugum þúsunda einstaklinga.

Efnislega eru þeir að vísu álíka valdalausir og hluthafar almenningshlutafélaga. Í báðum tilvikum eru nærri öll völd í höndum stjórnenda fyrirtækjanna. Þeir “eiga” fyrirtækin, hvort sem þeir eiga formlega séð krónu í þeim eða ekki. Það gildir bæði um SÍS og hina.

Hið eina, sem skiptir ríkissjóð og skattgreiðendur verulegu máli, er að losna fyrir sem hæst verð við fyrirtæki, sem löngum hefur verið illa stjórnað og hefur hvað eftir annað þurft á að halda peningagjöfum og eftirgjöfum af hálfu hins sameiginlega sjóðs okkar.

Hitt er svo hliðaratriði, hvort þessu happi ríkissjóðs og þjóðar fylgir samruni í bankakerfinu, annað hvort Útvegsbanka með Samvinnubanka og Alþýðubanka eða með Iðnaðarbanka og Verzlunarbanka. Í báðum tilvikum rætist gömul og ný ósk stjórnvalda.

Menn hafa auðvitað misjafnar skoðanir á, hvort æskilegra sé, að þriðji stórbankinn við hlið Landsbankans og Búnaðarbankans verði banki einkaframtaks eða samvinnuframtaks. Ágreiningurinn má þó ekki hindra, að sá fái verkefnið, sem bezt býður.

Hvernig sem máli þessu lyktar, hefur SÍS aukið hróður sinn sem stofnun framtaks og áræðis. Stjórnendur þess þorðu, þegar aðrir tvístigu og horfðu í gaupnir sér.

Jónas Kristjánsson

DV