Eldvagninn

Veitingar

Allt er pönnusteikt

Í Eldvagninum er notuð einföld matreiðsluformúla. Aðeins sjö aðalréttir, sennilega allir pönnusteiktir, eru á seðlinum, hinir sömu dag eftir dag, árið út og inn. Kokkurinn stendur inni í miðjum borðsal. Í augsýn gesta pönnusteikir hann réttina á eldvagni, það er að segja voldugum og afskaplega göfugum prímus. Þetta er fljótlegt og þægilegt fyrir alla aðila. Einnig veitir það í hugann óljósum, en unaðslegum minningum úr gömlum útilegum fyrir daga útigrillanna. Ennfremur minnir það á eldhöf, sem fyrr á tímum þótt fínt að láta gjósa upp í matsölum góðborgaralegra hótela.

Annar helzti kostur þessarar tegundar sýningar-matreiðslu er, að hún gefur engum kokki tækifæri til að skilja matinn of lengi eftir á pönnunni. Hraðinn verður að vera svo mikill, að ekki gefst tími til að spilla matnum með löngum eldunartíma. Meðal annars vegna þessa kemur, að frátöldum sósum og súpum, sómasamlegur matur úr því leikhúsi, sem Eldvagninn er öðrum þræði. Auk þess getur kokkurinn líka verið ágætur út af fyrir sig. Á það reynir bara lítið, þegar þessi snjalla formúla er notuð.

Hinn kosturinn er, að opinber matreiðsla gerir sumum gestanna kleift að sjá, hversu fallega eða illa útlítandi hráefni er og hvaða kunnáttu og hreinlætis er gætt við eldun þess. Þetta gulltryggir eiginlega, að vandað er til vals á hráefnum og reynt er að fara snyrtilega og kunnáttusamlega með það. Á leiksviði er óheppilegt að gera mistök og því eru þau ekki gerð í góðum leikhúsum.

Fura í mörgum útgáfum

Eldvagninn er dálítið sérstakur í útliti og verður tæpast kallaður stílhreinn. Einkenni hans er fura í ýmsum útgáfum. Fremst er mikið glerhús með grófri, hrásmíðaðri og ómálaðri furugrind og miklu af stórum pottaplöntum uppi um allt. Glerhúsið er nokkuð berangurslegt og kaldranalegt, af því að það kúrir í kjallara undir tröppunum niður að veitingahúsinu, andspænis voldugum bankavegg. Ekki virðist smíðinni vera endanlega lokið, þótt meira en ár sé liðið frá opnun, því að málningarbrún frá hliðarvegg nær hirðuleysislega út á grindina.

Hið innra er smíðin vandaðri og því vandaðri sem neðar dregur í salnum. Í loftinu er furupanill, í bitum og stoðum hefluð eða spónlögð fura og í skenkjum og borðum er límd fura.

Tveir skenkir eða vinnupláss eru í litlum 32 sæta salnum. Á hinum ytri er girnilegt brauðval hússins, að minnsta kosti þrjár tegundir. Ennfremur minna forvitnilegar vínflöskur. og loks skál með ísbergi, er gegnir hér hlutverki hrásalats. Við innri skenkinn vinnur kokkurinn af miklum tilþrifum.

Inni í þessum sal ferns konar furu eru svo ljósblár litur í gólfi, stólasessum og stólbökum og bleikur í stólum, kertum og pappírsþurrkum. Sums staðar eru múrsteinsveggir í húsinu, annars staðar ljósbleikir veggir. Koparpönnur og koparáhöld eru á innsta vegg og heljarlangt málverk á vegg þar við hliðina.

Sumum kann að finnast traustvekjandi að fá að sjá, að þjónustufólkið við skenkinn getur skorið brauð, opnað vínflöskur og mokað ísbergi upp úr salatskál. Verra var, að þjónninn sá ekki matarleifar síðasta gests á borðinu, sem ég sat við. Að öðru leyti var þjónustan í góðu lagi, og þjónninn mundi til dæmis eftir að bera gestum vatn og heitara kaffi.

Ostakaka var bezt

Brokkálssúpa virðist vinsæl súpa dagsins. Í bæði skiptin var hún venjuleg hveitisúpa með mauksoðnu káli og í annað skiptið með þeyttum rjóma út á. Annars virðist mér samkvæmt biturri reynslu, að almennt hér á landi þýði orðalagið “rjómalöguð” súpa, að um hveitisúpu sé að ræða. Með súpunni fylgdi mikið af góðu brauði og smjör í smjörskál. Kalt laxasalat sem forréttur var borið fram í eftirréttaglasi og minnti á eftirrétt, því að notuð voru jarðarber, bláber og kiwi til að gera réttinn litskrúðugan. Laxinn var ekki þurr.

Smálúða var ágætlega milt steikt, borin fram með vermút-steiktri blöndu af möndlum, papriku og blaðlauk, pönnusteiktri papriku í þremur litum, brokkáli og bakaðri kartöflu, svo og sterkri karrísósu úr hveiti. Piparsteik var afar meyr, hæfilega pipruð, borin fram með sterkri hveitisósu með piparkornum, smjörsteiktum gúrkum, mauksoðnum sveppum og léttsteiktu grænmeti. Allar sósur virtust bornar fram með skán og allir réttir með bakaðri kartöflu í álpappír og ísbergi, misjafnlega fersku.

Ostakaka var mjög góð, borin fram með girnilegum ávöxtum ferskum, svo sem ananas, melónu, grapefruit og kiwi, svo og þeyttum rjóma, sennilega bezti réttur staðarins. Sæmilegasta kaffi var borið fram með mintusúkkulaði.

Í hádeginu er ekki eldað við prímus. Þá er boðið ódýrt hlaðborð á 440 krónur, sem þýðir 500 krónur með kaffi. Á borðinu var hveitisúpa dagsins, margs konar fyrirmyndarbrauð, nokkrar tegundir af hráu grænmeti, nokkrir síldarréttir, pottréttur og ferskir ávextir, svo sem ananas og melóna. Þetta hlýtur að teljast hagkvæmt tilboð.

Eldvagninn er ekki áberandi að utanverðu. Hætt er við, að sumir, sem sjá skiltið uppi við Laugaveginn, rambi niður tröppurnar beint inn í nágrannann Sombrero í stað þess að beygja í 180 gráður að ósýnilegum dyrum Eldvagnsins.

Frekar ódýr staður

Samt hefur staðurinn venjulega verið þétt setinn erlendum ferðamönnum, þegar ég hef komið þar. Virðist mér, að einhverjir í ferðaþjónustu bendi fólki á staðinn, enda er hann fremur ódýr af vínveitingahúsi að vera, raunar í lægsta verðflokki slíkra staða. En úrval borðvína er bæði fátæklegt og ómerkilegt.

Í heild fannst mér Eldvagninn hafa það umfram marga nýlega og nýja staði, að hann hefur sinn sérstaka stíl, bæði í matreiðslu og útliti og á því fyllilega rétt á sér.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 1330 krónur

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
170 Rjómalöguð súpa kvöldsins
310 Sveitapaté
280 Kalt laxasalat með sýrðum rjóma
380 Pönnusteiktir sniglar
350 Rækjuskál með þúsund eyja sósu
680 Blandaðir sjávarréttir
510 Pönnusteikt smálúða með hvítvínssósu
610 Smjörsteiktur lax með sjávarréttasósu
980 Nautapiparsteik með koníakssósu
790 Lambafillet með malíbúsósu
690 Eldsteiktar kjúklingabringur í barbeque
890 Heilsteikt nautafillet með frönskum kartöflum
310 Ostaterta með ferskum ávöxtum
280 Ferskur ananas með púrtvínsstaupi
365 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi
190 Eplapæ með rjóma

DV