Síðasti hjalli viðræðna heimsveldanna tveggja um fækkun skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkueldflauga hefur reynzt greiðfærari en reiknað var með. Bendir nú flest til, að samkomulag sé á næsta leiti og verði undirritað fyrir lok þessa árs, líklega í nóvember.
Þessi velgengni viðræðnanna um svokallaðar Evrópuflaugar er eðlilegt framhald af hinni óvæntu og jákvæðu stefnu toppfundar Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík fyrir ári. Þótt þar næðist ekki samkomulag, varð ljóst, að bilið milli aðila hafði þrengzt skyndilega.
Fyrir tæpu ári var talað um, að Reykjavíkurfundur heimsveldanna tveggja hefði farið illilega út um þúfur. Það var rangt mat. Sá fundur braut ísinn í afvopnunarviðræðunum og hefur gefið tóninn í margvíslegum eftirgjöfum, sem nú gera senn undirritun mögulega.
Ánægjulegast við gang viðræðna á síðustu vikum er, að eftirlit með efndum á samkomulagi virðist ekki ætla að verða ófær þröskuldur. Margir hafa alla tíð óttazt, að samkomulag mundi að lokum stranda á andúð ráðamanna Sovétríkjanna á virku eftirliti með vopnabanni.
Það létti mjög þennan þátt málsins, að viðræðurnar víkkuðu úr banni við Evrópuflaugum yfir í bann við öllum flaugum á umræddu sviði, þótt þær væru geymdar í Asíu eða Ameríku. Auðveldara er að fylgjast með efndum á algeru banni en svæðisbundnu banni.
Um leið kom í ljós, að leyniþjónustur Bandaríkjanna höfðu áhyggjur af of miklu svigrúmi Sovétríkjanna til að notfæra sér eftirlitsrétt til að stunda njósnir gagnvart Bandaríkjunum. Þetta deyfði bitið í kröfu Bandaríkjanna um mjög nákvæman eftirlitsrétt aðilanna.
Eftirlit með efndum getur verið af ýmsu tagi, til dæmis réttur til að skoða á reglubundinn hátt verksmiðjur og geymslur, þar sem hin bönnuðu vopn gætu leynzt. Einna mestu máli skiptir réttur til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári.
Æskilegast væri, að heimsveldin næðu samkomulagi um strangt eftirlit. Hins vegar er betra en ekki, að þau nái samkomulagi um virkt eftirlit, þótt ekki sé af strangasta tagi, til dæmis úrtakseftirlit eða sýnishornaeftirlit, ef ekki næst samkomulag um heildareftirlit.
Þungum steini var rutt úr vegi samkomulags, þegar kanzlari Vestur-Þýzkalands féllst á, að í kjölfar samkomulags heimsveldanna yrðu meðaldrægar kjarnorku flaugar Vestur-Þýzkalands lagðar niður í áföngum samhliða flaugum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.
Í stórum dráttum má segja, að verið sé að semja um 2.000 kjarnaodda fækkun, 1.500 austan tjalds og 500 vestan þess. Þar með hefur klukka kjarnorkuviðbúnaðar verið færð aftur til ársins 1976, þegar Sovétríkin fóru að hraða kapphlaupinu með SS-20 flaugum sínum.
Hlutföllin í væntanlegu samkomulagi heimsveldanna tveggja eru sanngjörn í ljósi þess, að Sovétríkin hafa í rúman áratug verið mun harðskeyttari í kjarnorkuvígbúnaði en Bandaríkin. Vesturveldin hafa eftir sem áður ástæður til að hafa áhyggjur af öryggi sínu.
Enn er eftir að semja um 10.000 kjarnaodda, sem eru á langdrægum eldflaugum heimsveldanna. Einnig er eftir að semja um vaxandi yfirburði Sovétríkjanna í eiturvopnum og hefðbundnum vopnum og um stjörnustríðsáætlun Bandaríkjanna á sviði geimvarnavopna.
Undirritun á toppfundi í nóvemberlok um afnám 2.000 kjarnaodda skammdrægra og meðaldrægra eldflauga er því aðeins fyrsta skrefið af mörgum nauðsynlegum.
Jónas Kristjánsson
DV