Hrunamannaafréttur

Frá Tungufelli í Hrunamannahreppi um jeppaslóð norður í fjallaskálann í Leppistungum.

Fundizt hafa bæjarstæði nokkurra fornbæja á þessari leið, Lauga, Búðarárbakka, Rofshóla, Stangarness, Mörþúfu, Þórarinsstaða og jafnvel fleiri. Í Jarðabókinni segir, að tólf bæir hafi verið á þessum slóðum að fornu. Flestir eru þeir í um 260 metra hæð nálægt Búðará og Stangará, en einnig allt uppi í Fosslækjarverum og við Kerlingarfjöll. Allir þessir bæir fóru í eyði í sama vikurgosinu úr Heklu um 1100.

Síðan brúin kom yfir Jökulkvísl á veginum af Kili til Kerlingarfjalla, hefur þetta verið algeng ferðaleið hestamanna. Úr sveitum austan Hvítár hafa menn farið þessa leið í flokkum á landsmót í Skagafirði. Gamla leiðin lá miklu vestar og sunnar, yfir Grjótá í Hrafntóftaveri, síðan um Grjótártungu og yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells.

Förum frá Tungufelli fyrst norður birkivaxinn Tungufellsdal austan Jaðarfjalls. Síðan norður á Öldur og áfram norður meðfram Búðará og síðan vestan Búrfells. Reiðslóðin liggur nokkru vestar en jeppavegurinn. Frá Svínárnesi liggur reiðslóðin áfram á vestri bakka Sandár alla leið upp í Leppistungur. Jeppaslóðin liggur austar, fyrst norðaustur yfir Skyggnisöldu að Innri-Rauðá og síðan norður með Innri-Rauðárhlíð að fjallaskálanum í Leppistungum.

48,7 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fagridalur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur, Gullfoss, Harðivöllur, Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá, Grjótártunga, Kjalvegur, Rjúpnafell, Klakkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson