Bákninu tekið haustak

Greinar

Bezta eða skásta hlið hinnar nýju ríkisstjórnar felst í viðleitni Jóns Hannibalssonar fjármálaráðherra við að koma viti í fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir Alþingi eftir mánuð. Hann kynnti ríkisstjórninni raunhæfar hugmyndir um þetta fyrr í vikunni.

Viðskilnaður fyrrverandi fjármálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, var óvenjulega ömurlegur, þriggja milljarða halli á A-hluta fjárlaga á þessu ári og spá um hálfs fjórða milljarðs halla á A-hlutanum á næsta ári. Við þetta bætist svo halli á B og C hluta ríkisfjármála.

Jón hefur lagt til, að halli næsta árs verði skorinn niður úr hálfum fjórða milljarði í tæplega hálfan annan milljarð og að síðan verði ríkissjóður gerður út hallalaust árið þar á eftir, 1989. Hingað til hefur ríkisstjórnin talað um, að ná þessu marki á þremur árum.

Réttar eru röksemdir Jóns fyrir harkalegri viðbrögðum. Hinn mikli halli ríkisbúskaparins er veigamesti spennuvaldurinn í atvinnulífinu og grefur hratt undan áformum um stöðugt verðlag og fast gengi krónunnar. Þennan spennuvald verður að taka strax frá þjóðinni.

Æskilegast er að ná sem mestum hluta mismunarins með því að skera niður ríkisútgjöld. Þau eru því miður meira eða minna mörkuð ákveðnum verkefnum eða hafa tilhneigingu til að hækka sjálfvirkt. Þessa mörkun og sjálfvirkni þarf að afnema til að ná árangri.

Til dæmis verður að setja hömlur við smíði sjúkrahúsnæðis, sem ekki er hægt að reka. Einnig verður að setja sjúkrahúslið fjárlaga ákveðið hámark, til dæmis hundraðshluta af þjóðartekjum, og halda rekstrarútgjöldum innan rammans, þótt kveinað verði um allt land.

Annar liður, sem hingað til hefur haft siðferðilegt haustak á kerfinu, eru vegamálin. Einnig þar verður að setja framkvæmdum og rekstri eitthvert hámark, hundraðshluta af þjóðartekjum, og láta ekki óskhyggju eða aðrar fagrar hugsjónir trufla einbeittan niðurskurð.

Fjármálaráðherra hefur réttilega staðnæmzt við niðurgreiðslur búvöru sem vænlegasta niðurskurðarliðinn, heilan milljarð króna. Það hefur vakið lítinn fögnuð í hjörtum annarra ráðherra, sem yfirleitt gæta hagsmuna hefðbundins landbúnaðar gegn þjóðarhagsmunum.

Þeir benda á, að niðurskurður dragi úr sölu þessara afurða, og viðurkenna um leið, að niðurgreiðslur eru fyrir landbúnaðinn, en ekki neytendur. Þeir benda á, að söluminnkunin auki þörfina á útflutningsuppbótum, af því að ríkið tekur ábyrgð á öllu sukkinu.

Þessar ábendingar minna á, að fyrrverandi ríkisstjórn framdi undir andlátið verknað, sem líklega er lögbrot. Hún ábyrgðist kaup á einokunarverði á verulegu magni af kindakjöti og mjólkurafurðum, sem er langt umfram það, er þjóðin þarf að nota.

Að svo miklu leyti sem niðurskurður dugar ekki til að ná endum saman kemur til greina að hækka skatta. En þá verður ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir, hvern hún telur vera eðlilegan hámarkshlut ríkisbáknsins af þjóðarbúskapnum. Sá hlutur er nú um þriðjungur.

Alltaf er freistandi að leysa mál ríkissjóðs með því að hækka skatta. Smám saman verður hlutur hans of hár og sligar undirbyggingu efnahagslífsins. Skattahækkanir hafa tilhneigingu til að enda með skelfingu. Um það eru ótal dæmi í veraldarsögunni, fyrr og síðar.

Miklu nær er að líta á þriðjung ríkisins sem hámark og skipta honum síðan í samræmi við handbært fjármagn, en ekki meintar þarfir, sem vaxa endalaust.

Jónas Kristjánsson

DV