Þessa dagana er einu sinni sem oftar verið að reyna að fá útlendinga til að starfa í frystihúsunum, svo að þau komist yfir að varðveita aflann, sem berst að landi. Á sama tíma er verið að amast við, að fiskurinn, sem frystihúsin komast ekki yfir, sé fluttur út í gámum.
Veiðikvóti skipa, sem selja í gáma, er skertur um 10% af þeim hluta aflans. Þar á ofan er greitt sérstakt 90 aura gjald á hvert kíló af þorski og 25 aura gjald af öðrum fiski, sem fluttur er út í gámum. Fiskvinnslu-sölusamtökin eru að reyna að fá þessar álögur auknar.
Gjaldið er ólíkt öðru verðjöfnunargjaldi í sjávarútvegi. Það rennur ekki eftir árferði fram og til baka til þeirra, sem greiða það. Ísfiskútflutningurinn fékk til dæmis enga endurgreiðslu, þegar Þýzkalandsmarkaðurinn hrundi vegna hringormakvikmyndar í sjónvarpi.
Í gámamálinu hefur Vestmannaeyjabær fengið gert fyrir sig áróðursplagg, sem kallað er skýrsla. Höfundur þess hefur ítarlegar skoðanir á málinu og flytur þær ákaft, en lætur fylgja með tölur, til að menn haldi, að raunvísindi séu á ferð, en ekki þrætubókarlist.
Með áróðursplaggi þessu hefur Vestmannaeyjabær tekið málstað frystihúsa og fiskvinnslufólks gegn málstað útgerðar og sjómanna í hagsmunaárekstri þessara aðila. Kaupstaðurinn hefur skipað sér í sveit með einokunarsamtökum útflutningsfyrirtækja fiskvinnslunnar.
Þessum hagsmunaaðilum hefur tekizt að knýja fram gámaálögur á útgerð og sjómenn og vilja fá þær auknar. Þar með vilja þeir fá vernduð frystihús, sem hafa svo litla og lélega framleiðni, að þau geta ekki greitt nægilegt kaup til að fá íslenzkt fólk til starfa.
Með færslu fjármuna frá útgerð og sjómönnum til fiskvinnslu vilja frystihúsin geta staðið undir kostnaði við að útvega útlendinga til starfa, greiða ferðir þeirra og uppihald og almennt séð forðað sér frá því að takast á við vanda lítilfjörlegrar framleiðni og lágs kaups.
Eitt helzta markmið okkar ætti að vera að efla atvinnugreinar, sem hafa gífurlega framleiðni og geta borgað sældarlaun, svo sem er í sjómennsku, en draga úr og breyta greinum, sem hafa dapra framleiðni og borga svo vond laun, að fá þarf útlendinga til starfa.
Lág laun í fiskvinnslu stafa af, að verðmætisaukningin er lítil. Ísfiskur selst til dæmis erlendis á sama verði og freðfiskur. Bezti fiskurinn selst á mun hærra verði sem ísfiskur. En lægra ísfiskverð er á ýmsum afgöngum, sem fiskvinnslan hendir í gáma vegna manneklu.
Til að breiða yfir þessar staðreyndir endurtaka talsmenn fiskvinnslunnar sífellt þá blekkingu, að hún sé fullvinnsla, en ísfiskurinn sé hráefni. Hið rétta er, að fiskvinnslan er að verulegu leyti bara geymsluaðferð, sem á í vök að verjast vegna bættrar flutningatækni.
Fiskmarkaðirnir nýju hafa breytt mati á verðgildi afla upp úr sjó og hvatt til nýrra framleiðslurása í fiskvinnslu, sem geta staðið undir markaðsverði á fiski. Slíkum mörkuðum mun fjölga og þeir munu knýja fram endurhæfinguna, sem fiskvinnslan vill forðast.
Fiskmarkaðir eru mun heilbrigðari vörn gegn óhóflegum gámafiski en skattlagning, kvótafrádráttur og aðrar kvaðir, sem færa fé frá arðbærri og launadrjúgri starfsemi yfir til hinnar þreyttu, sem vill verða kvígildi eða ómagi á borð við hefðbundinn landbúnað.
Mikilvægt er, að þjóðin verði á varðbergi gegn freistingum stjórnmálamanna, sem hneigjast til að þjóna hagsmunum útflutningshringa fiskiðnaðarins.
Jónas Kristjánsson
DV