Gorbatsjov skorar mörkin

Greinar

Undir stjórn Gorbatsjovs hafa Sovétríkin á síðustu vikum stigið mikilvæg skref, sem ekki eru sjónhverfingar. Þau fela í sér raunverulega slökun, sem vekur vonir um, að unnt verði að gera jörðina að friðvænlegri bústað en verið hefur um allt of langt skeið.

Á sama tíma hefur atburðarásin varpað óþægilegu kastljósi að Reagan Bandaríkjaforseta sem hættulegum hugsjónamanni, er standi í vegi heimsfriðar. Í hverju málinu á fætur öðru hafa Bandaríkin lent í vandræðum við að svara af viti slökunarskrefum Sovétríkjanna.

Sanngjarnt er þó að taka fram, að Sovétríkjunum bar að stíga fyrstu skrefin. Þau bera meira en helming ábyrgðar á vígbúnaðarkapphlaupi síðustu tíu­tólf ára. Og þau hafa áratugum saman ógnað umhverfi sínu með Brezhnevs-kenningunni um einstefnugötu sósíalisma.

Ennfremur er nauðsynlegt að taka fram, að á sumum sviðum hefur ekkert komið áþreifanlegt fram, sem bendir til mildaðrar afstöðu Sovétríkjanna. Hæst ber þar grimmdarstríð Rauða hersins í Afganistan. Sovézka friðarhjalið á þeim slóðum hefur reynzt innihaldslítið.

Heima fyrir virðist stjórnarfar Sovétríkjanna hafa mildazt. Aukizt hefur gagnrýni á einstök atriði kerfisins. Fleiri andófsmenn fá að flytjast úr landi. Hafnar eru tilraunir til að bjóða fram í kosningum fleiri flokksmenn en einn á hvert sæti, sem er til ráðstöfunar.

Í Persaflóa hafa Sovétríkin farið gætilega, þótt þau hafi reynt að skara eld að sinni köku, svo sem heimsveldi gera gjarna. Minna hefur farið fyrir þeim en Bandaríkjunum, sem hafa fetað áhættusama braut og orðið óbeinir fangar hernaðaraðgerða Íraks á sjó.

Sovétríkin hafa neitað að láta Nicaragua í té meiri olíu og tilkynnt í staðinn verulegan samdrátt þeirra viðskipta. Þetta spillir rekstri hernaðartækja sandinistastjórnarinnar og bendir til, að Sovétstjórnin geti hugsað sér að draga úr þrýstingi í Mið-Ameríku.

Á sama tíma fer stjórn Reagans fram á nærri tvöföldun hernaðarstuðnings við glæpalýð gamalla somozista, svokallaðra contra-skæruliða. Með þessu grefur Reagan undan tilraunum leiðtoga Mið-Ameríku til að fá fram fylgt friðarsamkomulagi þeirra frá 6. ágúst.

Þar á ofan hefur Reagan rekið hinn sérstaka Mið-Ameríkusendiherra Bandaríkjanna, Philip Habib, sem hefur langa reynslu af friðartilraunum, bæði þar og í Miðausturlöndum. Sök Habibs var að vilja lægja öldurnar, gegn vilja róttæklingsins í Hvíta húsinu.

Sovétstjórnin, sem lengi hefur verið andsnúin virku eftirliti með banni við kjarnorkuvopnum, hefur nú snúið við blaðinu og komið aftan að Bandaríkjastjórn, sem ekki virðist vita, hvaðan á sig stendur veðrið. Gorbatsjov hefur þar slegið væna pólitíska keilu.

Komið hefur í ljós, að Bandaríkin studdu virkt eftirlit í trausti þess, að Sovétríkin gerðu það ekki. Þegar blóraböggullinn hvarf, fengu þeir hland fyrir hjartað, sem vilja ekki, að sovézkir snuðrarar séu á ferli á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Bandaríkjunum.

Allt bendir þetta til, að Reagan sé enginn bógur til að stjórna heimsveldi til kapps við Gorbatsjov í Sovétríkjunum. Reagan er haldinn róttækum hugsjónum, sem þvælast fyrir skynsamlegri hugsun, en Gorbatsjov er sem óðast að láta róttækar hugsjónir víkja fyrir viti.

Hið bjarta við þetta er, að Gorbatsjov er að festa sig í sessi og að Reagan mun eftir hálft annað ár víkja fyrir nýjum forseta, sem getur tekið á heimsvandamálum.

Jónas Kristjánsson

DV