Wörner eða Willoch

Greinar

Við valið milli Manfred Wörner og Kåre Willoch sem framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þurfa ríkisstjórnir aðildarríkjanna að sjá yfir tímamótin, sem nú eru í sögu þess. Um leið verða þær að reyna að losa bandalagið við elligigtina, er hrjáir það.

Hafa þarf í huga, að keppinauturinn, Varsjárbandalagið, lýtur nú mun betri forustu. Hvort sem menn telja, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi sé að leiða Sovétríkin og fylgiríki þeirra til betri vegar eða ekki, er ljóst, að hann er snjallari í áróðri en vestrænir leiðtogar.

Reiknað er með, að Gorbatsjov og Reagan Banda ríkjaforseti undirriti í vetur sáttmála um afnám skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkuflauga. Breytingin mun hafa áhrif á stöðu Vestur-Evrópu og kalla á ný viðhorf í varnarbandalagi vestrænna ríkja.

Engum, sem fylgdist með fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík í sumar, gat dulizt, að þreyta og ellimæði hrjáir samtökin. Forustumenn Nató horfðu eins og glópar, sem klóruðu sér, þegar Gorbatsjov skoraði hjá þeim hvert áróðursmarkið á fætur öðru.

Formlega séð hafa Sovétríkin gefið eftir miklu meira en Bandaríkin í viðræðunum um kjarnorkusamdrátt. Efnislega er jafnræði í eftirgjöfum, því að kapphlaup Sovétríkjanna hefur verið hraðara í rúman áratug. En eftirgjafir Gorbatsjovs hafa komið Nató á óvart.

Í sumum tilvikum hafa fulltrúar Sovétríkjanna tekið upp gamlar tillögur frá Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu og gert að sínum, en Nató-menn hafa átt erfitt með að kannast við eigin króga. Þeir hugsa hægt, eins og aldraðir embættismenn og herforingjar.

Afleiðingin er, að Atlantshafsbandalagið hefur glatað trausti víða í aðildarríkjunum. Þetta traust þarf bandalagið að endurheimta með því að breyta forustunni. Hún þarf að geta brugðizt á virkan hátt við framtaki Gorbatsjovs og allra helzt tekið sjálf frumkvæðið.

Manfred Wörner, varnaráðherra Vestur-Þýzkalands, er einn herfræðinganna á Vesturlöndum. Það þýðir, að hann talar tungumál gamlingjanna í aðalstöðvum Nató. Hann hefur lent í að fara undan í flæmingi með margvíslegum efasemdum gagnvart frumkvæðinu að austan.

Verið getur, að Bandaríkjastjórn sé að gera mistök með því að semja um algert afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga og að þrýsta Vestur-Þýzkalandi til að gefa eftir Pershing-flaugarnar. En það virðist búið og gert. Málstaður Wörners tilheyrir liðinni tíð.

Kåre Willoch, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur hins vegar reynzt einn leiknasti stjórnmálamaður Vesturlanda. Hann hefur átt auðvelt með að sætta ólík sjónarmið og er fljótari að hugsa en flestir aðrir. Hann er réttur maður í réttu vandræðamáli.

Atlantshafsbandalagið þarf að geta nýtt sér til fulls hið jákvæða í stefnubreytingu Sovétríkjanna og áttað sig á svipstundu á hinu neikvæða, svo að ekki sé ætíð of seint í rassinn gripið. Samtökin þurfa menn, sem geta teflt skákirnar við Sovétríkin til góðs.

Nató þarf líka menn, sem geta slípað samstarfið og virkjað það á ýmsa vegu. Sum dýr hugsjónamál eru orðin úrelt og ættu eð gleymast sem fyrst. Önnur mál eru jafndýr og bráðnauðsynleg, en skortir samstöðu þátttökuríkjanna. Allt bendir þetta á Willoch.

Wörner táknar meira af hinu gamalkunna og þreytulega, en Willoch er maður þeirra hæfileika, sem Atlantshafsbandalaginu eru allra brýnastir núna.

Jónas Kristjánsson

DV