Hölkná

Frá mótum þjóðvega F909 og F910 norðan Sauðafells á Fljótsdalsheiði um Hölkná að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

Faxagil er um þremur kílómetrum sunnan við slóðina niður í Hrafnkelsdal. Þar innan við var bær á tíma Hrafnkels sögu Freysgoða. Í gilinu er væntanlega Faxahamar, sem þó hefur ekki verið nákvæmlega staðsettur. Þar var Freyfaxa hrundið fram af hamrinum og út í ána. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos í Veiðivötnum á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Byrjum á mótum þjóðvega F909 og F910 og fylgjum jeppaslóð til norðurs alla leið. Fyrst norður yfir Hölkná, síðan austan og norðan Kálffells og norðnorðvestur að brún Hrafnkelsdals. Þar niður brattar brekkur og yfir Hrafnkelsá að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

12,6 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sænautasel.

Nálægar leiðir: Kárahnjúkar, Fljótsdalsheiði, Vesturöræfi, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins