Frá fjallaskálanum Ytri-Mosum um Íshólsvatn og Hrafnabjargavað að Hrauntanga í Suðurárbotnum.
Vesturhlið Íshólsvatns var skógi vaxin fram á 19. öld, en er núna örfoka. Vatnið er mjög djúpt og þar er töluvert um silung. Mjóidalur er í rauninni framhald Bárðardals. Þar var áður bærinn Mjóidalur, þar sem Stephan G. Stephansson bjó. Bærinn er nú kominn í eyði, enda hefur lengi verið mikill uppblástur í hlíðum dalsins, einkum að vestanverðu.
Förum frá Ytri-Mosum norður með Mosakvísl um Mjóadal að Íshólsskarði. Förum austur yfir skarðið og síðan til norðurs fyrir austan Íshólsvatn og norðaustur um lægðina við norðurenda vatnsins. Þar förum við yfir þjóðveg F26 og áfram norðaustur að Hrafnabjargavaði á Skjálfandafljóti. Það er gott vað með traustum botni. Förum svo eftir jeppaslóð, fyrst suðaustur með Skjálfandafljóti. Þar er hluti af Bárðargötu suður yfir Vonarskarð. Við beygjum jeppaslóð til austurs að Suðurá og förum upp með henni og suðaustur að Hrauntanga í Suðurárbotnum. Hægt er að fara norður yfir Suðurá á jeppavaði töluvert vestan Stóru-Flesju.
33,3 km
Þingeyjarsýslur
Ekki fyrir göngufólk
Skálar:
Ytri-Mosar: N65 11.634 W17 29.492.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Réttartorfa, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Dyngjufjalladalur, Kráká, Suðurárhraun, Biskupaleið.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson