Frá Reykjavík til Nesjavalla.
Vinsæl dagleið frá Reykjavík með næturgistingu á Nesjavöllum. Fara má þá leið, sem lýst er hér að neðan eða ríða gamla þjóðveginn um Litlu Kaffistofuna og fara síðan fyrir Húsmúla inn í Engidal.
Jórukleif er upp frá Hestvík við Þingvallavatn. Þjóðsagan kennir hana við Jórunni bóndadóttur í Flóa. Þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati, trylltist hún og varð að tröllkonu. Settist hún að í Jóruhelli í Hengli. Hún beið ferðamanna í Jórukleif. Rændi öllu af þeim og drap þá síðan. Gat enginn stoppað hana fyrr en góð ráð komu frá Noregskonungi. Þetta er falleg leið og gróðursæl. Mikilfenglegt er útsýnið af brún Jórukleifar yfir Þingvallavatn. Hér er lýst leið um Lyklafell, en líka er hægt að fara um Litlu Kaffistofuna. Sú leið er einnig sýnd á kortinu.
Förum frá Faxabóli meðfram reiðhöllinni á reiðslóð austan Breiðholtsbrautar og um göng undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Fylgjum slóðinni sunnan vatnsins og síðan skógargötu að hesthúsunum í Almannadal . Þar förum við á gamla Suðurlandsveginn norðan þess nýja, förum yfir Bugðu og áfram austur með veginum. Fyrir innan Gunnarshólma förum við veg um sumarhúsahverfi norðaustur að Elliðakoti og þaðan eftir slóð til austurs um Stangarhól og sunnan við Lyklafell. Áfram förum við austur um Vallöldu og Norðurvelli að Hengli. Þar sveigir slóðin til norðurs með fjöllunum, fyrst um Engidal og síðan um Þjófahlaup. Einnig er hægt að taka krók um Marardal nær fjallinu. Þegar við nálgumst Nesjavallaleið förum við upp brekkur, yfir veginn og áfram beint norður og niður í Folaldadal austan við Sköflung. Þar liggur slóðin fram á brún Jórukleifar. Við förum þar niður og upp á þjóðveg 360 um Grafning. Fylgjum þeim vegi til suðurs um Illagil og Botnadal niður á Nesjavelli. Þar tökum við afleggjara að gistiskála austan til á völlunum.
42,8 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla
Skálar:
Múlasel: N64 04.880 W21 22.140.
Nálægir ferlar: Elliðaárdalur
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Rauðhólahringur, Rauðavatnshringur, Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Þrengsli, Ólafsskarð, Mosfellsheiði, Dráttarhlíð, Marardalur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson