Þrír Frakkar

Veitingar

Búða-menn á toppnum

Þrír Frakkar eru ein notalegasta matstofa landsins, – veitingahús franska stærðfræðingsins Matthíasar Jóhannssonar, sem fyrir nokkrum árum hjálpaði Rúnari Marvinssyni að gera garðinn frægan að Búðum á Snæfellsnesi. Nú hafa þeir félagar báðir haslað sér völl í Reykjavík og komizt þar á toppinn.

Þrír Frakkar Matthíasar eru að vísu ekki alveg eins góðir og Við Tjörnina Rúnars og vantar enn herzlumuninn að komast í flokk hinna sárafáu þriggja húfu veitingahúsa. En Þrír Frakkar eru einna fremstir þeirra, sem skarta tveimur húfum. Og enn jákvæðara er, að staðnum hefur ekki hnignað, heldur hefur honum smám saman vaxið ásmegin í matreiðslu.

Viðskiptalífið virðist ekki nógu duglegt við að halda uppi góðum veitingahúsum í hádeginu. Svo virðist sem íslenzkir kaupsýslumenn séu ekkert spenntir fyrir nýjungum í veitingarekstri og matargerð og fari jafnan í sömu, gömlu hótelsalina til að fá sömu, gömlu réttina. Sumir beztu matstaðanna eru lokaðir í hádeginu á sumrin, svo sem Arnarhóll, og sumir allt árið, þar á meðal Þrír Frakkar.

Húsnæði Matthíasar og félaga ber menningarlegan, franskan svip. Það er innréttað í gömlu húsnæði, í einni, lítilli 16 sæta stofu, herbergi inn af henni og garðskála út frá henni. Veggirnir eru ljósmálaðir að ofan og klæddir dökkum viði að neðan. Skemmtileg smíðajárnsborð með rauðleitum marmaraplötum eru að mestu falin undir borðdúkum. Svörtu viðarstólarnir eru þægilegir. Á borðum eru tauþurrkur, kerti og afar fallega skorin vínglös, sem hljóta að vera viðkvæm í uppþvotti og eftir því dýr í rekstri.

Þjónusta hefur verið misjöfn þessi fáu ár, sem Þrír Frakkar hafa verið opnir. Stundum hefur hún verið mjög góð, stundum sæmileg og einu sinni var hún broslega leikræn. Það var þegar þjónninn sagði: “ÉG býð í dag upp á…” Í seinni tíð hefur þjónustan undantekningarlaust verið til fyrirmyndar.

Sagt frá árgöngum

Vínlistinn hefur það umfram flesta bræður sína hér á landi, að árganga er getið. Þannig mátti um daginn til dæmis sjá, að til var árgangur 1985 af Chateau Barthez de Luze, 1983 af Chateau Cantenac, 1985 af Chateau Fontareche, 1985 af Chateau Cléray, 1985 af Gewürztraminer og 1986 af Riesling Hugel. Samanlagt eru þetta mörg af beztu vínum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins.

Ekki er síður mikilvægt, að vínin, sem seld eru í glasatali, eru bæði góð, Chateau Fontareche og Riesling Hugel. Annars staðar hér á landi eru yfirleitt valin hin verstu vín til að gegna þessu mikilvæga hlutverki. Þrír Frakkar eru sem sagt einn fárra staða eða kannski eini staðurinn á landinu, þar sem hægt er, í orðsins fyllstu merkingu, að fá sér glas af góðu víni.

Þá fæst í Þremur Frökkum, einum íslenzkra matstaða, franskur Kronenbourg-bjór, blandaður ýmsum tegundum ávaxtasafa, til dæmis kiwi og ananas saman.

Stakkaskipti seðils

Hér er oft skipt um matseðil, en ekki þó daglega, eins og bezt væri. En matseðillinn tekur líka algerum stakkaskiptum hverju sinni, svo að breytingin er alls ekki bara til málamynda eins og hjá sumum öðrum. Seðillinn er hæfilega stuttur, yfirleitt með þremur forréttum, þremur fiskréttum, þremur kjötréttum og þremur eftirréttum.

Rjómalöguð fiskisúpa var snarpheit og afar góð, full af rækjum og stórum humarbitum. Með henni var dökkt brauð með smjöri í skál. Mjög góður beitukóngur var borinn fram í eldtraustum leirbolla, afar heitur og ákaflega mikið kryddaður, blandaður mikilli papriku og í fylgd með hrísgrjónum til hliðar. Sniglar voru líkir því, sem annars staðar eru boðnir. Lárperu-kraumís var sérkennilegur forréttur, sérstaklega frískur og áberandi góður.

Skötuselur var sæmilegur, ekki sérstaklega meyr, töluvert hvítlaukskryddaður, borinn fram með góðri sósu, hrísgrjónum, rækjum og léttsoðnum gulrótum. Afar góð humarkássa var rækilega pipruð og tilbrigðarík og fól í sér mikinn humar og blaðlauk, olífur, appelsínur, sveppi og góða sósu.

Frábær villibráðarsósa

Hreindýr var mildilega steikt, einstaklega meyrt og afar gott, borið fram með frábærri villibráðarsósu og óhóflegu magni af margvíslegu meðlæti. Grilluð lambasteik, næstum jafngóð, var einnig létt og meyr, óvenju ljós, fyllt lárperumauki, er átti vel við kjötið og með óhóflegu magni af meðlæti, sem var ekki hið sama og með hreindýrakjötinu.

Heimalagaður appelsínukraumís var góður, borinn fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma. Afar góð súkkulaðikaka var vætt í koníaki og borin fram með þeyttum rjóma. Döðlutertan var mýkri og ekki síður góð, einnig með þeyttum rjóma. Mjúklega eldsteiktur banani var ljúffengur, borinn fram með góðri appelsínusósu.

Þriggja rétta kvöldverður með kaffi, en án víns, kostar að meðaltali 1.682 krónur í Þremur Frökkum.

Jónas Kristjánsson

Matseðill
320 Rjómalöguð spergilsúpa
410 Beitukóngur piperade
440 Sniglar að hætti Flandrarans
780 Smálúða með sveppum og brie-osti
760 Steinbítur í rauðvíni
750 Smokkfiskur í karrí
970 Kanína með sveskjum
990 Grilluð lambasteik fyllt með lárperumauki
1200 Nauta-piparsteik
1400 Hreindýr með bökuðum eplum
350 Döðlutertan hennar Önnu
370 Krapís Þriggja Frakka með mokka, te og súkkulaði
380 Eldsteiktur banani með appelsínusósu

DV