Íslendingar bera hluta ábyrgðarinnar á, hvernig komið er fyrir menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Við höfum ekki aðeins vannýtt hið heila atkvæði, er við höfum þar sem aðildarþjóð, heldur einnig stjórnarsætið, er við höfum haft þar allra síðustu árin.
Menntamálaráðherrar og ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa ekki sér til afsökunar að vita ekki, hvað hefur verið að gerast í Unesco. Í rúm ellefu ár hefur í að minnsta kosti jafnmörgum leiðurum hér í blaðinu verið varað við öfugþróuninni í hinni heillum horfnu stofnun.
Valdamenn okkar hafa eins og valdamenn Norður landa og margra Vesturlanda ekki tekið Unesco nógu alvarlega. Þangað hafa verið sendir fulltrúar og stjórnarmenn, sem hvorki hafa taflgetu né harðfylgi til að etja kappi við glæpalið M’Bows framkvæmdastjóra.
Stjórnarmönnum Vesturlanda í Unesco og öðrum fulltrúum þeirra þar hefur mistekizt að finna frá þriðja heiminum frambjóðanda, er geti náð öruggu kjöri sem nýr framkvæmdastjóri menntastofnunarinnar. Fylgið gegn M’Bow hefur dreifzt á of marga frambjóðendur.
Í fyrstu atkvæðagreiðslum hefur næstur á eftir M’Bow komið pakistanski hershöfðinginn Jakub. Hann er auðvitað, eins og aðrir, illskárri en M’Bow. Eigi að síður er hann óviðeigandi, því að hann er fulltrúi herforingja, sem komu lýðræðislega kjörinni stjórn Pakistans á kné.
Leiðtogum þriðja heimsins er auðvitað flestum sama um slíkt, en Vesturlönd mega ekki sætta sig við framkvæmdastjóra af því tagi. Bezt hefði verið að fá mann frá þjóðum Suður-Ameríku, sem hafa verið að losa sig við harðstjórnir herforingja á undanförnum árum.
Enn er ekki loku fyrir það skotið, að samkomulag náist um ágætis mann á borð við Iglesias, utanríkisráðherra Uruguay. Horfurnar virðast samt mjög daufar, því að M’Bow trónir á tindi hverrar atkvæðagreiðslunnar á fætur annarri og hershöfðinginn nær öðru sæti.
Meira en áratugur er síðan öllum mátti ljóst vera, að M’Bow mundi rústa Unesco. Síðan hafa dæmin hvert á fætur öðru sannað kenninguna. Menntastofnunin rambar á barmi siðferðilegs og fjárhagslegs hruns. Stjórnarmenn hennar hafa ekki náð neinu taumhaldi.
Nær allir embættismenn, sem eitthvað hafa getað unnið, hafa flúið Unesco eða verið hraktir þaðan. Í staðinn hafa komið frændur M’Bows og aðrar pöddur, sem hafa það eitt hlutverk að verja veldi hans. Þremur fjórðu af peningum stofnunarinnar er sóað í Parísarsukk.
Hið litla, sem Unesco megnar að gera, er neikvætt. M’Bow hefur beint fé og kröftum stofnunarinnar að málum, sem auðvelda harðstjórum að kúga þjóðir þriðja heimsins, meðal annars með því að takmarka upplýsingaflæði og efla áróðursráðuneyti harðstjóra.
Unesco er beitt gegn mannréttindahugsjónum Vesturlanda. Þess vegna nýtur M’Bow mikils stuðnings meðal harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og austurblakkarinnar, jafnvel þótt þeim sé ljóst, að hann er einnig búinn að koma menntastofnuninni á vonarvöl.
Seta íslenzks fulltrúa í stjórn Unescos á þessum hörmungatíma er okkur til vansæmdar. Við hefðum betur farið frá borði í tæka tíð, áður en við tókum ábyrgð á ósómanum. En raunar er þó aldrei of seint að játa sannleikann og ganga úr hinni vegavilltu menntastofnun.
Hinn nýi menntaráðherra okkar hefur því miður aðeins sagt, að Ísland taki aðild sína til endurskoðunar, ef M’Bow nær endurkjöri. Það er allt of vægt orðað.
Jónas Kristjánsson
DV