Arias gegn róttæklingum

Greinar

Oscar Arias Sánchez er vel að friðarverðlaunum Nóbels kominn. Hann er forseti Costa Rica, herlauss ríkis á ófriðarsvæði Mið-Ameríku, og höfundur friðarsamkomulagsins 7. ágúst, sem varð grundvöllur aukins lýðræðis í Nicaragua, er áður var á leið til einræðis.

Arias er betur að verðlaununum kominn en þjóðarleiðtogarnir Corazon Aquino á Filippseyjum og Raul Alfonsin í Argentínu, sem eru meira eða minna undir hælnum á herforingjum ríkja sinna. Val Ariasar bendir til, að verðlaunanefndin hafi hugsað málið vandlega.

Róttæklingurinn Reagan Bandaríkjaforseti var seinheppinn um daginn, þegar hann reyndi á ýmsan hátt að lítillækka Arias við komu hans til Bandaríkjanna, meðal annars með því að láta ekki embættismenn vera viðstadda, þegar hann ávarpaði bandaríska þingið.

Friðarsamkomulag Ariasar var einnig undirritað af Ortega frá Nicaragua, Duarte frá El Salvador, Azcona frá Honduras og Cerezo frá Guatemala. Það leggur þessum Mið-Ameríkuríkjum ýmsar skyldur á herðar til að ná friði innan landamæra sinna og milli þeirra.

Hingað til hefur stjórn sandinista í Nicaragua framkvæmt það, sem hún lofaði í samkomulaginu. La Prensa, óháða dagblaðið, sem barðist áður gegn einræðisherranum Somoza og síðan gegn sandinistum, hefur hafið útgáfu að nýju og er að þessu sinni ekki ritskoðað.

Útvarpsstöð kaþólikka er aftur tekin til starfa. Talsmanni kaþólsku kirkjunnar, Bismarck Carballo, hefur verið hleypt inn í landið að nýju. Kardínálinn og stjórnarandstæðingurinn Miguel Obando y Bravo hefur verið gerður að formanni svokallaðrar Þjóðarsáttarnefndar.

Margt bendir til, að sandinistar séu meira að snyrta á yfirborðinu en undir niðri. Nýlega voru handteknir Lino Hernandez, formaður mannréttindanefndar landsins, og Alberto Saborio, forseti lögmannafélagsins. Lögregluhundum er sigað á mannréttindafundi

Þegar Cruz Flores frá La Prensa tók mynd 15. ágúst af lögregluhundum, sem sigað var á friðsamt fundar fólk, var filman gerð upptæk og ljósmyndaranum varpað í svartholið. Það er í ýmsu slíku afar grunnt á stalínismanum í sandinisma stjórnvaldanna í Nicaragua.

Sandinistar treysta völd sín með því að skipa hvarvetna hverfisnefndir sandinista, sem hafa tvenns konar hlutverk. Þær útdeila nauðsynlegum skömmtunarseðlum til sumra, en ekki annarra. Og þær gefa skýrslur til leyniþjónustunnar um stjórnmálaskoðanir fólks.

Raunar hafa sandinistar ekki lýðræðislegt umboð til að fara með völd í Nicaragua. Stjórnarandstaðan tók ekki þátt í síðustu kosningum, af því að sandinistar réðu öllum fjölmiðlum landsins og beittu slagsmálaliði til að hleypa upp fundum stjórnarandstöðuflokkanna.

Í þessum efnum skjóta sandinistar sér á bak við Reagan Bandaríkjaforseta. Þeir segjast verða að láta hart mæta hörðu, því að hann haldi uppi sveitum skæruliða í landinu. Þetta eru svonefndir Contras, hópar ribbalda undir stjórn glæpamanna frá Somoza-tímanum.

Bandaríkin ættu að reyna að bæta fyrir brot sín frá Somoza-tímanum með því að stuðla að friði í Nicaragua. Í staðinn bætir forsetinn gráu ofan á svart með því að halda uppi glæpasveitum Contras með löglega og ólöglega fengnu fé, meðal annars frá vinunum í Íran.

Arias verðlaunahafi hefur hins vegar sómann af að hafa tekizt að vinda lítillega ofan af ósómanum, sem róttæklingar Reagans og sandinista hafa undið upp.

Jónas Kristjánsson

DV