Hókus pókus

Greinar

Fjárlagafrumvarpið, lánsfjáráætlun ríkisins og þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar valda áhyggjum um velferð þjóðarinnar undir handleiðslu hinnar nýju ríkisstjórnar. Í gögnum þessum og ýmsum hliðargögnum eru meiri sjónhverfingar og minni hagfræði en ætlað var.

Spámenn ríkisstjórnarinnar tala um aðgerðir gegn sex milljarða viðskiptahalla á næsta ári og spámenn Verzlunarráðs tala um allt að tíu milljarða. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þessum vanda eru of vægar og munu ekki leiða til fullnægjandi minnkunar hallans.

Ráðherrar, sem standa fyrir umfangsmikilli prentun verðlausra peningaseðla á vegum Seðlabankans, fara villir vegar, ef þeir halda, að sífelldar yfirlýsingar þeirra um, að gengið verði áfram fast, séu teknir trúanlegar af þeim, sem taka þátt í kapphlaupi við gengislækkanir.

Stjórnin er að koma sér í þær ógöngur að neyðast til að halda dauðahaldi í fastagengið miklu lengur en hollt er, bara til að geta kennt öðrum um gengislækkunina, er hún kemur. Stjórnin mun segja, að þeir, sem spá gengislækkun, séu að biðja um hana og framkalla hana.

Hins vegar hefur ríkisstjórninni næstum tekizt að telja flestum trú um þá firru, að gerðir hennar stefni að hallalausum ríkisbúskap á næsta ári. Þá er einblínt á svonefndan A-hluta fjárlaga og neitað að horfast í augu við hallann, sem felst í lántökum ríkisins.

Ennfremur er of mikið af fjárlaganiðurskurði síðustu vikna fólgið í handahófskenndum lækkunum holt og bolt, sem ekki fela í sér neinar efnislegar aðgerðir, er tryggi, að hinn góði ásetningur verði að veruleika. Þetta er ekki lækning, heldur snyrting, það er sjónhverfing.

Reynslan sýnir, að pennastrik af þessu tagi leiða til aukafjárveitinga eða umframeyðslu, þegar til kastanna kemur. Við höfum gott dæmi af niðurgreiðslum landbúnaðarafurða, sem oft eru skornar niður í fjárlögum, en belgjast síðan aftur út í meðförum ríkisstjórnar.

Annars er fjármögnun landbúnaðarins bezta dæmið um vel heppnaða sjónhverfingu ríkisstjórnarinnar. Framleiddur hefur verið stormur í vatnsglasi, þar sem mikill fjöldi leikara hefur komið fram og grátið út af illri meðferð á landbúnaði í fjárlagafrumvarpinu.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Milli ára hækka tveir stærstu landbúnaðarliðir frumvarpsins, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, um 700 milljónir eða tæplega 40%, sem er langt umfram verðbólgu milli ára. Aðrir liðir eru skiptimynt í samanburði við þessa tvo.

Í heild hefur verið reynt að gefa falska mynd af fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Látið er í veðri vaka, að hún hafi í farangrinum hallalausan ríkisrekstur, fast gengi krónunnar, hóflegan viðskiptahalla þjóðarbúsins og niðurskurð hins hefðbundna landbúnaðarskrímslis.

Við raunsæju fólki blasir hins vegar önnur mynd, sem sýnir á næsta ári óvenjulega mikinn hallarekstur ríkisins, hastarlega gengislækkun krónunnar, methalla á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd og aukna byrði skattborgara og neytenda af hinum heilögu kindum og kúm.

Of snemmt er að spá, að allt fari þetta á versta veg hjá ríkisstjórninni. En óneitanlega er uggur við hæfi, því að allt of margt í fjármálaverkum stjórnarinnar ber meiri keim af sjónhverfingum en hagfræði og að á allt of mörgum sviðum er þetta tvennt í óskýrri blöndu.

Mikilvægast í stöðunni er, að fólk átti sig á ofangreindum hættum og láti ekki ráðherra komast upp með að láta sjónhverfingar leysa hagfræði af hólmi.

Jónas Kristjánsson

DV