Unesco verður endurreist

Greinar

Í augsýn er hinn langþráði nóvemberdagur, er Amadou Mahtar M’Bow lætur af embætti framkvæmdastjóra Unesco, menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Við hlutverki hans tekur væntanlega Spánverjinn Federico Major, er ætti að geta endurreist Unesco.

Federico Major er líffræðingur, sem sneri sér að stjórnmálum á vegum spánskra jafnaðarmanna. Hann hefur gott orð á sér og er talinn geta tekizt á við hvort tveggja, stjórnleysið og spillinguna í stofnuninni, svo og andstöðu hennar við vestrænar lýðræðishefðir.

Þótt Major yrði á endanum eini frambjóðandinn í síðustu atkvæðagreiðslunni, fékk hann tuttugu mótatkvæði af fimmtíu. Það bendir til, að sumir harðstjórar þriðja heimsins geti hugsað sér að blása saman liði gegn honum á aðalfundi stofnunarinnar í nóvember.

Fulltrúar frá fimmtíu ríkjum áttu aðild að atkvæðagreiðslunni í stjórn stofnunarinnar. Á aðalfundinum verða fulltrúar frá öllum aðildarríkjunum 158. Á báðum stöðum eru í meirihluta lögreglu- og ofbeldisríki af ýmsu tagi, svo að málið er ekki alveg komið í höfn.

Herforingjastjórnin í Pakistan harmar fall frambjóðanda síns, hershöfðingjans Jakub Kahn. Hún er nú að reyna að tefla honum fram á nýjan leik til málamiðlunar og æsir í því skyni til andstöðu harðstjóra þriðja heimsins gegn Major sem vestrænu forstjóraefni.

Kahn hefði orðið betri forstjóri en M’Bow, enda væri leitun að manni, sem ekki væri það. Hins vegar geta Vesturlönd aldrei stutt til valda í Unesco fulltrúa ríkisstjórnar, sem brýtur gróflega gegn mannréttindum. Því verðum við að vona, að kjör hins spánska Majors standi.

Fyrstu viðbrögð brezku og bandarísku ríkisstjórnanna við úrslitum atkvæðagreiðslunnar í París eru dapurleg. Í stað þess að fagna niðurstöðum og gefa góð orð um, að þær gerist aðilar að Unesco á nýjan leik, hafa þær látið í ljós efasemdir um, að svo verði.

Auðvitað er eðlilegt, að útgönguríkin taki heimferðina rólega og fylgist með, hvort endurreisn og siðvæðing Unesco verður að veruleika, áður en þau ákveða endanlega að vera aftur með. En viðbrögð Bretlands og Bandaríkjanna hefðu mátt vera bjartsýnni og jákvæðari.

Þegar farið verður að taka til hendinni í Unesco, er gott að hafa með í ráðum þau ríki, sem ætlazt er til, að leggi mest fé af mörkum, og sem hafa einna lengsta reynslu allra ríkja af lýðræði og mannréttindum. Meira en nóg er af auralausu harðstjóraríkjunum í Unesco.

Brýnasta verkefni Majors verður að hreinsa til í starfsmannaskrá stofnunarinnar, einkum efst í henni. Losna þarf við hirðmenn M’Bows og aðra getuleysingja, sem hafa komið í stað hinna, er flúið hafa sukkið og svínaríið. Allt æxli M’Bows þarf að nema á brott.

Hitt fylgir svo í kjölfarið, að hætt verði að sóa fjórum krónum af hverjum fimm í rekstur höfuðstöðvanna í París og farið að nota meginhluta fjárins til að sinna hinum raunverulegu verkefnum stofnunarinnar, svo sem baráttu fyrir læsi og menntun í þriðja heiminum.

Einnig er tímabært, að Unesco hætti að þjóna hagsmunum harðstjóra. Stofnun M’Bows hefur mælt með einokun þeirra á upplýsingaflæði innan ríkja þeirra, til þeirra og frá þeim. Major hefur hins vegar spánska reynslu af Franco og hættum, sem fylgja slíkri einokun.

Fulltrúar Íslands í Unesco og stjórn þess eiga að vinna af alefli að staðfestingu á kjöri Majors og að árangri í miklu starfi, sem framundan er í menntastofnuninni.

Jónas Kristjánsson

DV