Dagur hrakmennafélags

Greinar

Suður-Afríka hefur um langan aldur verið helzta hneykslunarhella Sameinuðu þjóðanna. Það stafar af, að þar í landi beitir fámennur hvítur minnihluti lög regluofbeldi og aðskilnaðarstefnu, þar á meðal búsetureglum, til að kúga fjölmennan meirihluta svartra.

Sameinuðu þjóðirnar amast hins vegar ekki við, að fámennur kommúnistaflokkur í Sovétríkjunum beiti þjóðir þeirra ofbeldi, sem í flestu er hliðstætt hinu suðurafríska. Lögmál hræsninnar hjá Sameinuðu þjóðunum veldur því, að Sovétfulltrúar bera höfuðið hátt.

Einfaldast er að bera Suður-Afríku saman við Eþiópíu. Í síðara landinu beitir fámennur stjórnarhópur þjóðina ofbeldi hers og lögreglu, skipuleggur nauðungarflutninga, þar sem þúsundir farast úr hungri, og drekkur viskí á meðan Vesturlönd stunda hjálparstörf.

Fulltrúar harðstjóranna í Eþiópíu þykja samt húsum hæfir í sölum Sameinuðu þjóðanna. Svo blindir eru Vesturlandamenn á varmenni þriðja heimsins, að jafnvel Amnesty gefur félögum sínum forskrift að skjallbréfi til Mengistu harðstjóra til að milda grimmd hans.

Öll fleðulæti í garð hrakmenna þriðja heimsins, hvort sem þau koma fram í skjallbréfum frá Amnesty eða í sölum Sameinuðu þjóðanna, staðfesta trú harðstjóranna á, að þeim sé í stórum dráttum kleift að halda áfram að kúga og kvelja þjóðir sínar, rupla þær og ræna.

Næst á eftir Suður-Afríku í óvinsældum hjá Sameinuðu þjóðunum er Ísrael, sem óneitanlega er orðið ofbeldisríki, þar sem gamlir hryðjuverkamenn í Likud-bandalaginu hafa náð hlutdeild í völdum og beita arabíska landa og nágranna ójöfnuði af ýmsu tagi.

Hins vegar er vanzi ráðamanna Ísraels sízt meiri en ráðamanna arabaríkjanna, sem mest hamast gegn Ísrael. Begin og Shamir og Sharon í Ísrael blikna í samanburði við Assad í Sýrlandi og Hussein í Írak, svo ekki sé minnzt á Khomeini í Íran og Kaddafi í Líbýu.

Raunar má segja, að um það bil 120 ríki Sameinuðu þjóðanna búi við meiri harðstjórn og ofbeldi en stjórn Ísraels stendur fyrir. Ráðamenn þessara ríkja hafa komizt til valda eða halda völdum á meira eða minna ólýðræðislegan hátt og margir á mjög hraklegan hátt.

Vesturlönd eiga að láta fulltrúa sína á vettvangi Sameinuðu þjóðanna neita að taka þátt í hræsninni, sem felst í síbylju samtakanna um Suður-Afríku og Ísrael og dauðaþögn þeirra um harðstjórn um það bil 120 ríkja þriðja heimsins, sem ráða ferðinni í samtökunum.

Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar sérstofnanir þeirra, svo sem menntastofnunin Unesco, hafa smám saman verið að breytast úr musterum í ræningjabæli. Þar hefur allt fyllzt af umboðsmönnum harðstjóra, sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa til valda í aðildarríkjunum.

Bandaríkin og Bretland gengu úr Unesco og flest önnur Vesturlönd fóru að andæfa gegn stjórnarháttum M’Bows framkvæmdastjóra. Slíkt andóf þarf að efla og færa yfir á vettvang allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, ýmissa nefnda samtakanna og sérstofnana þeirra.

Vesturlönd mega ekki missa sjónar á grundvallarforsendu Sameinuðu þjóðanna, er lesa má í mannréttindasáttmála samtakanna. Þar má ljóst sjá, að stjórnir alls þorra þátttökuríkjanna vanvirða mannréttindi íbúanna, eins og þau eru skilgreind í mannréttindasáttmálanum.

Dag Sameinuðu þjóðanna er gott að nota til að minna Vesturlönd á að fá samtökunum breytt í upprunalega mynd eða ganga að öðrum kosti úr félagi hrakmenna.

Jónas Kristjánsson

DV