Frá Keldum á Rangárvöllum til eyðibýlisins Kots á Rangárvöllum.
Þessi leið var kölluð Kirkjustígur milli Selsunds og Keldna. Hana fór fólk af Heklubæjum til kirkju á Keldum. Við Knafahóla segir Njála, að 30 menn hafi setið fyrir bræðrunum Gunnari, Kolskeggi og Hirti. Þar féll Hjörtur og fjórtán fyrirsátsmanna áður en flótti brast í lið þeirra. Tvö kuml hafa fundizt hér. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf. Minnir það á fall Hjartar og tengist þannig Njálssögu.
Förum frá Keldum. Andspænis bænum förum við um mjótt hlið á girðingu til norðurs og förum upp hraunbrúnina, þar sem eru vörður á henni. Þar förum við á varðaða leið um Keldnahraun, svonefndan Kirkjustíg. Um þrjá kílómetra norður frá hraunbrúninni komum við í Knafahóla, sem getið er í Njálu. Við höldum áfram beint í norður um Réttarheiði og Hrísar. Slóðin er víða ógreinileg, sokkin í lúpínu. Við förum nokkurn veginn beina línu norður að eyðibýlinu Koti við Heklubraut.
3,3 km
Rangárvallasýsla
Nálægir ferlar: Heklubraut, Knafahólar, Hungurfit, Grasleysufjöll, Þríhyrningur.
Nálægar leiðir: Tröllaskógur, Geldingavellir, Víkingslækur, Reynifell.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson