Kjalvegur

Sjá texta um einstakar leiðir á Kjalvegi.

Á Sturlungaöld var Kjölur almannaleið og fóru menn þar stundum um með stóra herflokka. 1199: Þorgrímur alikarl Vigfússon ríður norður Kjöl í Skagafjörð.
1208: Þorvaldur Gissurarson ríður norður Kjöl til stuðnings Kolbeini Tumasyni, en sneri við, þegar hann frétti fall Kolbeins.
1238: Kolbeinn ungi Arnórsson og Einar Þorvaldsson funda á Kili.
1238: Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi ríða með 1100 manns norður Kjöl til Örlygsstaðabardaga.
1241: Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi funda á Kili.
1248: Þórður kakali fer suður Kjöl og tekur þar ríki Gissurar.
1250: Ögmundur Helgason fer suður Kjöl í umboði Þórðar kakala.
1257: Þorgils skarði Böðvarsson ríður norður Kjöl og dreymir í Hvinverjadal um andlát sitt.
1264: Gissur Þorvaldsson ríður suður Kjöl til átaka við Oddaverja.

Við vitum ekki nákvæmlega, hvaða leið Gissur og Kolbeinn riðu norður Kjöl.
Björn Gunnlaugsson sýnir leið á kortinu frá 1849 á svipuðum slóðum og núverandi bílvegur. Ég gef mér hins vegar, að 1500 manns á hestum hafi valið að fara gróðursælli leið, fyrst austan Hvítár og síðan í skjóli Langjökuls. Fyrst upp Tungufellsdal og áfram austan við Hvítá um Harðavöll, Svínárnes og Grjótártungu og yfir Jökulfall þar sem það rennur í Hvítá norðan Bláfells. Svo upp með Fúlukvísl í Þjófadali og þaðan um Hvinverjadali á Hveravelli. Loks yfir Blöndukvíslar að Blöndulóni austanverðu og yfir Heiðarhaus niður í Mælifellsdal og yfir Héraðsvötn gegnt Sólheimum í Akrahreppi. Hafi þeir farið vestan Hvítár, er leið þeirra lýst eftir dagleiðum nútímans: Fremstaver, Hvítárvatn, Þjófadalir, Guðlaugstungur, Haugakvísl, Mælifellsdalur, Héraðsvötn. Samanlagt er þetta ein ljúfasta leið hestamanna nútímans, góðar moldargötur langleiðina frá Fremstaveri yfir í Galtará.

35,7 km
Árnessýsla, Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Fagridalur, Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Tungufellsdalur, Harðivöllur, Svínárnes, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson