Kínahofið

Veitingar

“Dýrð er að djörfu tapi!”

“Dýrð er að djörfu tapi”, mætti þýða málsháttinn, sem ég fékk í kínversku forlagakökunni með reikningi Kínahofsins. “In great attempts it is glorious even to fail” stóð þar á miða eins og við þekkjum úr páskaeggjum.

Helzt held ég, að málshátturinn vísi til endurtekinna tilrauna til að koma á legg kínversku veitingahúsi í þessu húsnæði við Nýbýlaveginn í Kópavogi. Þær hafa mistekizt, nema þessi síðasta, sem hefur það fram yfir hinar að hafa góðan mat í farteskinu. Vonandi leiðir sú djarfa dýrð til sigurs.

Hér voru áður Mandarín og Kínahúsið. Það voru að mínu viti staðir eins konar markaðstízku. Hressir menn höfðu látið sér detta í hug að “markaðssetja” þyrfti kínverskt veitingahús á Íslandi. Svo var það gert, væntanlega samkvæmt viðskiptalögmálum, en þess ekki gætt, að veitingahús er fyrst og fremst eldhús og innihald, en ekki markaðssetning. Kínahofið forðast þessi slys og á vonandi framtíð fyrir sér.

Hátt til lofts – langt til sjarma

Innréttingar eru að mestu hinar sömu og áður. Horfnir eru pappírsdrekarnir í loftinu, en eftir eru kínverskar ljósakrónur og vegglampar með gegnsæjum myndum og löngum dúskum, svo og blævængir og rómanskir speglar. Í heild er kínverska yfirbragðið mildara og þægilegra en áður var. Á borðum eru hvítir og rauðir taudúkar, rauðar pappírsþurrkur, hvít plastblóm og sojasósa. Hátt er til lofts og langt til sjarma í Kínahofi.

Þjónustan er sumpart afar góð og man meira að segja nokkurn veginn, hver af sex gestum við borð pantaði hvern hinna tólf rétta. Slíkt geta fáir skólagengnir þjónar hér á landi. En sumpart er þjónustan ófagleg og áhugalítil, á svipaðan hátt og hún var, þegar staðurinn hét öðrum Kínanöfnum.

Matseðillinn er svipaður því, sem tíðkast í kínverskum veitingahúsum á Vesturlöndum. Boðið er upp á allmarga grunnrétti í nokkurn veginn stöðluðum útgáfum. Grunnréttirnir eru til dæmis fiskur, rækjur, lamb, naut, kjúklingur og svín.

Útgáfurnar eru til dæmis súrsæt sósa, sjopsúei-sósa og hojsin-sósa, svo og karrí, sem ekki er kínverskt fyrirbæri, heldur indverskt. Allt er þetta skorið niður í bita, sem hægt er að borða með prjónum.

Kaffi fyrir matinn

Önd er á matseðlinum, en var ekki fáanleg í raun. Nokkur vín eru í boði, öll með afbrigðum léleg, þar á meðal húsvín í glasatali. Á boðstólum er aðeins ein einasta tegund af tei, þótt veitingahúsið sé kínverskt. Í hádeginu er gestum að bandarískum sið boðið að sötra kaffi, meðan þeir bíða eftir pöntuninni. Ég hef aldrei séð slíkt áður í siðmenntuðu veitingahúsi, hvað þá í kínversku húsi.

Eggjadropasúpa með grænmeti og karrísúpa með kjúklingi voru bragðsterkar og góðar. Súr fiskisúpa var einnig góð, en minna var spunnið í kjúklingasúpu með dósasveppum og hádegissúpu með grænum dósabaunum. Grænmetið í súpunum var yfirleitt mildilega soðið. Vorrúllur reyndust mjög harðar og stökkar, betri en venjulega fást hér á landi.

Súrsætur fiskur var afar góður, svo milt meðhöndlaður, að fiskbragðið hélzt, sem ekki er algengt í vestrænum Kínastöðum. Djúpsteikti fiskurinn var líka með fiskbragði, bragðsterkur og góður réttur. Undurmeyr hörpufiskur og rækjur með grænmeti voru frábær matur og reyndust það líka í annarri atrennu. Þetta var í bæði skiptin betri hörpufiskur en ég hef áður fengið að heiman.

Kjúklingur með ananas og papriku var meyr og góður. Enn meyrara og fínna var lambakjöt í sjopsúei. Nautakjöt með bambus-spírum og sveppum var hins vegar bara í meðallagi gott. Sama var að segja um kjúkling í karrí.

Eftirréttir voru lítils virði, niðursoðið litsí með ís, djúpsteiktur ananas með ís og rjómaís með súkkulaðisósu, sem reyndist vera súkkulaðiís með þeyttum rjóma. Teið var gott, líklega jasmín-ættar.

Kópavogsferðar virði

Í hádeginu er ekki gefið eftir í matreiðslunni, þótt þá séð boðið, í þessari röð, kaffi, súpa og val úr fjórum réttum, á 350 krónur að meðaltali. Á kvöldin er boðin súpa og þrír réttir á 1050 krónur. Af fastaseðlinum er miðjuverð þriggja rétta máltíðar með tei 1087 krónur. Hörpufiskurinn á 690 krónur og lambakjötið á 620 krónur eru virði ferðalags í Kópavog.

Jónas Kristjánsson

DV