Frekjan er þjóðaróvinur

Greinar

Nýlega bað landssamband kartöflubænda landbúnaðarráðuneytið um að banna innflutning á kartöfluflögum, þar sem framleiðsla kartaflna hefði verið mikil innanlands í sumar. Ennfremur krafðist það útflutningsuppbóta, svo að minna magni þyrfti að henda á haugana.

Framleiðendur morgunkorns hafa ekki beðið um innflutningsbann til að sitja einir að markaðinum og ekki heldur beðið um útflutningsuppbætur, svo að þeir geti gefið útlendingum umframmagnið, sem Íslendingar vilja ekki kaupa. Milli þessara tveggja viðhorfa er hyldjúp gjá.

Annars vegar eru til í landinu menn, jafnvel heilar stéttir, sem telja þjóðfélagið skulda sér lífsframfæri. Ef þeim dettur í hug að framleiða eitthvað, telja þeir samfélaginu skylt að ábyrgjast kaup á öllu framleiðslumagninu og á verði, sem endurspeglar tilkostnað þeirra.

Á hinum, heilbrigða kantinum er fólkið, sem telur sér skylt að svara spurningum um, hvort neytendur þurfi á afurð þess að halda, í hvaða magni og á hvaða verði. Það verður að finna rétt svör, svo að framtak þess leiði ekki til gjaldþrots eða annars ófarnaðar.

Stjórnmálamenn hafa hér á landi reynzt mjög liprir við að styðja málstað fámennra og þröngra sérhagsmunahópa, sem vilja fá sitt fram á kostnað hins fjölmenna, en dreifða hóps neytenda og skattgreiðenda. Fáir stjórnmálamenn styðja í raun hina síðarnefndu.

Sláturhúsmálið á Bíldudal er dæmi um, að margir þingmenn eru reiðubúnir að heimta sérstök lög gegn gildandi lögum og reglugerðum um heilbrigðismál, svo að unnt sé að slátra á heimaslóðum og framleiða kjöt, sem neytendur séu síðan forspurðir látnir borða.

Eitt bezta dæmið um hina landlægu frekju sérhagsmunahópa var ferð nokkurra Austfirðinga að sjúkrabeði samgönguráðherra til að fá hann ofan af ráðagerð um að bjóða út framkvæmdir við flugvöllinn á Egilsstöðum. Þeir þóttust eiga forgang að verkinu.

Fyrri samgönguráðherra var sérfræðingur í dekri við sérhagsmuni af þessu tagi, enda nýlega helzti upphlaupsmaður Bíldudalsmálsins. Í Egilsstaðamálinu var hann að láta semja beint við nokkra heimamenn á grundvelli kostnaðaráætlunar, er hann datt úr embætti.

Nú er verið að bjóða verkið út. Árangurinn felst eins og venjulega í lægri kostnaði fyrir skattgreiðendur. Sérhagsmunir hafa vikið fyrir almannaheill í flugvallarmálinu, eins og þeir hafa raunar líka gert í sláturhúsmálinu. Hið heilbrigða sigrar öðru hvoru hér á landi.

Stundum verða heimamenn varir við kosti réttlætisins. Nýlega börðust Vestfirðingar gegn innrás steypustöðvarútibús frá Reykjavík. Nú verða þeir að viðurkenna, að nýja steypustöðin hefur kollvarpað einokun heimaaðila og lækkað byggingarkostnað á svæðinu.

Hrikalegasta dæmið um frekju sérhagsmunaaðila er hinn hefðbundni landbúnaður. Hann telur neytendum skylt að borða afurðir sínar og skattgreiðendum skylt að ábyrgjast tiltekið magn á tilteknu verði, ýmist með styrkjum, niðurgreiðslum eða útflutningsuppbótum.

Í þessu tilviki ráða sérhagsmunirnir. Neytendum er meinað að nota samkeppnisvöru frá útlöndum og skattgreiðendur eru látnir borga offramleiðsluna, ekki bara með styrkjum, niðurgreiðslum og uppbótum, heldur nú síðast einnig í flutningi kjöts á haugana.

Þannig er frekjan sumpart löggilt, en verður annað veifið að láta undan síga. Í öllum tilvikum er barátta gegn henni eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV