Stór og tíð friðarskref

Greinar

Skammt er nú stórra högga milli í samningum heimsveldanna tveggja um aukið öryggi. Í september var undirritaður samningur um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir. Og í næsta mánuði á að skrifa undir bann við skamm- og meðaldrægum kjarnaflaugum.

Ef þessir samningar virðast ætla að gefast vel, má reikna með, að fleiri geti fljótlega fylgt í kjölfarið. Fulltrúar heimsveldanna hafa rætt helmings minnkun langdrægra eldflauga, takmörkun efnavopna, samdrátt hefðbundinna vopna og friðarbelti við járntjaldið.

Þeir Gorbatsjov og Reagan munu væntanlega undirrita 7. desember samkomulagið um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuvopna, sem þeir voru næstum búnir að ná í Reykjavík fyrir rúmu ári. Toppfundur hefði ekki verið boðaður, ef slíkt stæði ekki til.

Mikilvægi september- og desembersamninga þessa árs felst einkum í, að þeir lengja svigrúm beggja til að íhuga viðbrögð, ef viðbúnaðartækni þeirra gefur vísbendingu um, að hinn aðilinn hafi gert árás. Þannig verður dregið úr líkum á tæknilegum mistökum.

Sameiginlegar stofnanir í höfuðborgum heim- og meðaldrægra flauga eyðir hættunni, sem skemmstan flugtíma hefur. Hvort tveggja eflir raunsætt mat á hugsanlegu hættuástandi.

Margs er að gæta við þessa samningagerð. Reynslan hefur sýnt, að stjórn Sovétríkjanna brýtur stundum gegn gerðum samningum, ef hún telur sér það henta. Og stjórn Bandaríkjanna er ekki heldur yfir það hafin að flytja nýja og langsótta túlkun gamalla samninga.

Strangt og virkt eftirlit með efndum hlýtur að vera einn mikilvægasti þáttur allra slíkra samninga. Lengst af hafa menn óttazt ­ og ekki að ástæðulausu ­ að stjórn Sovétríkjanna væri ófáanleg til að samþykkja eftirlit, sem gengi nógu langt. Hún hefur kallað það njósnir.

Á Vesturlöndum hafa menn staðið fast á, að fráleitt væri að treysta sovézkum orðum um góðan vilja. Þess vegna þyrfti ákvæði um eftirlit með efndum, þótt það ylli herstjórum hugarangri. Sovétstjórnin virðist nú hafa gefið þetta eftir, svo að brautin er beinni en áður.

Með ströngu og virku eftirliti er meðal annars átt við rétt til reglubundinnar skoðunar á verksmiðjum og geymslum vopna og rétt til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári. Ef einhverjir telja þetta njósnir, verða þeir bara að sætta sig við þær.

Ef allt gengur þetta vel, má vona, að fyrr en síðar verði samið um helmings fækkun langdrægra eldflauga, um bann við framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um samdrátt hefðbundinna vopna, einkum á viðkvæmum svæðum, svo sem á breiðu belti við járntjaldið.

Menn Gorbatsjovs í Moskvu hafa gefið ádrátt um, að Sovétstjórnin sé til viðræðu um alla þessa mikilvægu þætti aukins öryggis jarðarbúa. Við verðum að vona, að hugur fylgi máli og að þessi nýja stefna nái að festa rætur, þrátt fyrir andstöðu harðlínumanna í Kreml.

Með slíkum samningum draga Vesturlandabúar ekkert úr þeim rétti, sem þeir áskilja sér til að draga Sovétríkin til ábyrgðar fyrir hernaðinn í Afganistan, mannréttindabrot og svik við samninga, sem kenndir eru við Helsinki og Jalta, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Með tíðum viðræðum heimsveldanna aukast ört horfur á, að í fyrsta sinn frá upphafi kjarnorkualdar hætti öryggi fólks að minnka og byrji að vaxa á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson

DV