Vafasamir umbótamenn

Greinar

Hvarf Íslendinga frá kaþólsku til lútersku var áður fyrr oft nefnt “siðbót”. Þær leifar af hlutdrægni sigurvegarans hurfu að mestu fyrir nokkrum áratugum. Nú er breytingin jafnan réttilega kölluð “siðaskipti”. Það er skynsamlegt orð, sem felur ekki í sér hlutdrægni.

“Umbót” er hlutdrægt orð, sem er í tízku um þessar mundir. Deng hinn gamli í Kína og Gorbatsjov í Sovét ríkjunum eru kallaðir “umbótasinnaðir”, þótt ábyrgara væri að kalla þá “umskiptasinnaða”, því að þeir vilja breytingar, sem deila má um, hvort séu til bóta.

Blaða- og fréttamenn eiga að kunna að verjast tilraunum til að lita upplýsingar þeirra. Þess vegna er undarlegt að sjá í sjónvarpi, heyra í útvarpi og lesa í blöðum, að “umbótasinnar” hafi tekið við stjórnvelinum í Beijing og “umbótasinnum”Gorbatsjovs fjölgi í Moskvu.

Við skulum líta nánar á stefnu Dengs og þeirra manna, sem hann hefur stutt til valda í Kína. Hann hafði frumkvæði að stöðvun veggblaðanna í Beijing, þar sem fólk hafði getað sagt meiningu sína. Hann lét refsa höfundum blaðanna til að fæla aðra frá sömu iðju.

Tíbetbúar hafa ekki orðið varir við neinar umbætur af hálfu Dengs og hans manna. Þar í landi urðu í síðasta mánuði uppþot, er hin kínversku stjórnvöld bældu niður harðlega. Ekki eru séð nein merki þess, að menn Dengs hyggist bæta fyrir kínverska glæpi í Tíbet.

Lengst af voru Tíbetar sjálfstæð þjóð og bjuggu við afar sérstæða menningu munklífis. Kínverski herinn réðst inn í landið 1950 og innlimaði það í Kína. Í menningarbyltingunni 1966 voru um 6000 klaustur skemmd og eyðilögð til að útrýma þjóðareinkennum Tíbeta.

Uppþotin í síðasta mánuði sýna, að enn lifir í þjóðernisglæðum Tíbeta, á svipaðan hátt og Eistlendingar, Lettar og Lithaugamenn reyna að hlúa að þjóðerni sínu, þrátt fyrir sífelldar ofsóknir Kremlverja. Þau sýna líka, að valdhafarnir hafa ekki sett upp silkihanzka.

Hinar meintu umbætur Dengs felast ekki í virðingu fyrir sjálfstæðri hugsun í veggblöðum eða fyrir sjálfsákvörðunarrétti kúgaðra þjóða. Þær felast fyrst og fremst í, að hann vill beizla gróðafíkn manna til að efla þjóðarhag, eins og gefizt hefur vel á Vesturlöndum.

Umskiptastefnur Dengs og Gorbatsjovs miða ekki að auknu lýðræði og meiri mannréttindum. Þær eru aðferðir til að knýja meiri afköst út úr þjóðarbúskapnum með því að gefa þrælunum tímabundna og óvissa hlutdeild í hagnaðinum af auknum afköstum þeirra.

Einnig felast þær í auknu aðhaldi og eftirliti með, að settum markmiðum verði náð. Í því skyni vill Gorbatsjov til dæmis draga úr, að íbúar Sovétríkjanna eyði dýrmætum tíma til að drekkja sorgum sínum í vodka. Þetta á að fá þá til að vinna meira og slóra minna.

Hugsanlegt er, að einstök atriði breytinganna í Kína og Sovétríkjunum megi flokka undir umbætur, ekki sízt bætt samskipti við umheiminn. Séu þær hins vegar skoðaðar í heild, er traustara að forðast fullyrðingar um, að breytingarnar feli í sér “umbótastefnu”.

Erfitt er að hugsa sér sem umbótasinna þá valdhafa, sem kúga fólk í svipuðum mæli og fyrirrennararnir gerðu og eru næstum eins hættulegir umhverfi sínu og fyrirrennararnir voru. Allra sízt ættu lífsreyndir fjölmiðlungar að falla í slíka gryfju hugsanaletinnar.

Íslenzka lúterskan bauð af sér betri þokka, en verður þó að sæta því raunsæi í orðavali að vera ekki lengur kölluð “siðbót”, heldur eingöngu “siðaskipti”.

Jónas Kristjánsson

DV